Aumt var það.

Enn blogga ég um íþróttir. Mér finnst sárt að horfa á leikmenn íslensks landsliðs mæta í leik fyrir hönd þjóðarinnar og leggja sig ekki fram. Það er engin skömm af því að tapa þegar menn geta horft í eigin barm og sagt, ég gerði mitt besta.

Það var alls ekki í kvöld og nánast allir leikmenn íslenska liðsins voru á hælunum, hægir, baráttusnauðir og hugmyndalausir. Tugmilljónaleikmenn röltu um völlinn og dingluðu sér, enda kannski varla von að menn spili fótbolta af nokkru viti þegar þeir verma varamannabekk mánuðum saman. Það væri kannski ráð af stilla upp leikmönnum í þokkalegri leikæfingu.

Ég veit að þessi leikur skipti engu máli hvað varðaði úrslit í riðlinum, þannig séð. En það afsakar ekki að mæta í leik og leggja sig ekki fram. Það mátti bara gefa leikinn og það hefði skilað sömu niðurstöðu 3-0.

Ég held að það væri ráð að skipta út einhverjum af þeim áskrifendum að landsliðssæti og setja inn menn sem spila fyrir Ísland af stolti og áhuga.  Ekki nógu skipulagðir segir fyrirliðinn. Ef það væri málið væri málið auðleyst. Málið er sennilega að menn eru ekki að leggja sig fram og það vantar þjálfara og fyrirliða sem kunna og geta byggt upp baráttu og sigurvilja. Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt og ferskt og leggja milljarðaletihaugum ?


mbl.is Eiður Smári: Þurfum að líta í eigin barm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki og sveitarfélög hafa misst af lestinni.

Í þennslu og samkeppni síðustu missera hafa ríki og sveitarfélög algjörlega misst af launaskriðslestinni og hafa orðið alvarlega undir í samkeppni um vinnuaflið. Þetta er að hluta til sú ástæða að það eru eimitt þessir hópar sem hafa verið settir á það hlutverk að vernda stöðugleikann og því hafa samningsaðilar haldi því til streitu að halda launahækkunum í skefjum. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig síðan í þjóðarsáttarsamningunum um 1990.

Á meðan þessum hópum hefur verið gert að stuðla að þjóðarsátt hafa aðrir hópar náð því að selja vinnuframlag sitt miklu dýrar og helgast það meðal annars af samkeppni um vinnuaflið. Það hefur aftur leitt til þess að stórir hópar starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hafa horfið á braut og hafa komist í störf þar sem almenni markaðurinn er að greiða í samræmi við framboð og eftirspurn. Þetta eru ekki mikil vísindi en segir alla söguna. Í stað þeirra sem horfið hafa af láglaunasvæðum vinnumarkaðarins hafa að hluta til komið erlendir starfsmenn, t.d. í heilbrigðisþjónustuna, ferðaþjónustuna og að hluta til til sveitarfélaga og ríkis þar sem því hefur verið við komið.

Nú er svo komið að starfsmannavelta hins opinbera er komin að hættumörkum og fyrir liggur að ríki og sveitarfélög geta ekki haldið uppi lögboðinni starfsemi vegna starfsmannaskorts. Því miður virðist sem ráðamenn á þeim bænum hafi ekki skilning á því hvað er að gerast og hafa ekki farið í neina samkeppni um fólkið. Þá eru menn að hugsa um rekstrarreikninginn eingöngu.

Það sem gerist næst hjá hinu opinbera ef það ætlar ekki að taka þátt í þessari samkeppni er að lykilmenn og stjórnendur hverfa á braut og eftir situr vanmönnuð, verri þjónusta með starfsmenn sem ekki eiga möguleika á hinum almenna markaði. Það leiðir aftur til verri þjónustu og þegar upp er staðið, miklu verri.

Mér finnst kominn tími til að ríki og sveitarfélög fari að viðurkenna þennan vanda og mér finnst það stappa nærri fölsun þegar fjármálaráðherra, Alþingi og sveitarfélög eru að afgreiða fjárlög sem alls ekki standast þær kröfur sem gerðar eru til opinberrar þjónustu. Hið opinbera verður að semja við sitt fólk í samræmi við þann veruleika sem ríkir í þjóðfélaginu og hætti að blekkja sjálft sig og aðra með því að hér sé enn ríkjandi þjóðarsátt sem beri að virða. Þjóðarsáttinn um hóflegar launakröfur og skynsamlega launastefnu er ekki til staðar og við því ber að bregðast með að semja við sitt fólk í samræmi við þann veruleika sem ríkir.


mbl.is Ekki góð laun í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjalldalafífill á Glerárdal

Blóm og sólMinning frá síðasta sumri. Ég er strax farinn að sakna ljósmyndaferðanna út í náttúruna. Nú hafa þær lagst af í bili og þess í stað stekkur maður af stað milli skúra og élja og gómar það sem gefst.

Að fara inn á Glerárdal, finna sér laut eða brekku gefur heils dags verkefni við myndatökur slík er fjölbreyttni gróðurs og náttúru. Myndin sem hér fylgir með er úr lautu, við læk, í brekku, mót sól. Þar skriðum við Lára ljósmyndafélagi minn og vinur um grundir lengi dags og leituðum fanga. Góður dagur þar og sambærilegur kemur ekki fyrr en næsta sumar en það er eitthvað til að hlakka til.

Fjalldalafífill (Geum rivale L.) vex í rökum gróskumiklum lautum og hvömmum. Algengur um allt land og verður 10 - 50 cm á hæð. Rótin geymir ýmis ilm og bragðefni sem notuð voru í krydd. Gömul nöfn á þessari tegund Fjalldæla, biskupshattur og sólsekvía. Hún þótti hafa margskonar lækningamátt td góð við matarólyst, blóðsótt, og til að strá í vond sár. Hin mesta nytjaplanta sem sagt.


Moldvörpur kerfisins.

Moldviðri undanfarinna daga hafa opinberað svo ekki verður um villst hvernig komið er fyrir íslensku þjóðfélagi. Undir fallegu, sléttu og felldu yfirborði lýðræðis og vestrænna stjórnarhátta er annað kerfi sem er allt annað og valdameira.

Á leynifundum, í klúbbum og í bakherbergjum valdaflokkanna gömlu þrýfst neðanjarðarvaldakerfi sem stjórna, ráða og drottna. Þetta kerfi velur sér auðmenn og skammtar þeim aðgengi að eignum þjóðarinnar, afhendir þeim aðgang að gróðalindum og síðast en ekki síst afhendir völdum vildarvinum fyrirtæki og auðlindir þjóðarinnar.

Orkuveitumálið er eitt fárra svona mála sem ná til yfirborðsins og birtast almenningi í sinni hráblautu mynd. Kjörnir fulltrúar fólksins kalla auðmenn heim til sín þar sem menn makka og skipta með sér milljörðum við eldhúsborðið. Þetta er gert á samráðs og vitundar þeirra sem um mál eiga að fjalla og oftast lekur svona í gegn. Sennilega voru það rangir gróðamenn sem áttu að fá eignina í þessu tilfelli.

Um allt kerfið hafa fulltrúar þessa neðanjarðarkerfis valdamanna komið sér fyrir og drottna og ráðskast í skóli embætta sinna. Dæmi um slíkt er plöntun fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins í embætti seðlabankastjóra og Halldórs Ásgrímssonar til norrænu ráðherranefndarinnar þar sem hann fær nokkur völd og áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þann sið áratugum saman að koma slíkum fulltrúum á réttum stöðum þar sem þeir tryggja áhrif og auðsöfnun vildarvina flokksins.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki verði eins klókur í þessum málum og því miklu augljósari sú spilling sem viðgengist hefur lengi þar sem áhrifamenn í Framsóknarflokkum hafa rakað til sín milljarðahundruðum.

Þetta moldvörpukerfi hefur lengi dulist venjulegu fólki og fjölmiðlar hika að takast á við að fjalla um þau enda flestir í eigu þeirra sem hafa hag af slíku kerfi. Ríkisfjölmiðlarnir eru auk þess rígbundnir því valdaflokkarnir hafa plantað skjólstæðingum sínum í áhrifastöður þar.

Hvað hefur þetta kerfi lagt til samfélagsins undanfarinn áratug. Afrakstur einkavæðingar hefur að miklu leyti lent í vösum auðmanna, td hafa allir ríkisbankarnir lent hjá vinum flokkanna. Síminn er kominn í hendur manna sem sennilega greiða upp það sem hann kostaði á nokkrum árum. Svona mætti lengi telja. Næstu skotmörk þessarra manna eru orkufyrirtækin, í eigu sveitarfélaga og síðan Landsvirkjun sem örugglega er kominn á væntingalista moldvörpukerfisins.

Þrátt fyrir þetta allt saman búum við við viðvarandi vandamál í heilbrigðiskerfinu, almannatryggingakerfinu og víðar. Þar skortir fé og öryggiskerfin okkar eru veik og fjársvelt. Bætur til þeirra sem minna mega sín eru með því lægsta sem þekkist í sambærilegum ríkjum og öryggisnetin okkar eru veikburða og götótt.

Tekjur sveitarfélaganna eru allt of lágar miðað við þá þjónustu sem þeim er gert að veita. Það skortir vilja stjórnmálamanna til að breyta því og mér finnst freistandi að halda því fram að moldvörpukerfinu þóknist það lítt að dreifa fjármagni og gera það óaðgengilegra fyrir þá stil að nota.

Moldvörpukerfið sem við búum við er ein helsta uppspretta þeirrar gríðarlegu misskiptingar sem við sjáum aukast í þjóðfélaginu. Menn við kjötkatlana skammta sér og sínum geysilegum fjárhæðum og mismunur hæstu og lægstu tekna er kominn úr öllum böndum.

Moldvörpukerfið er líka ein helsta ástæða þess að ekki má ræða aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það hentar því ekki að við bindumst sambandi sem aldrei liði slíkar aðferðir sem hér tíðkast. Moldvörpurnar munu leggja mikla vinnu í að koma í veg fyrir að almenningur njóti útrásar lífskjara við inngöngu í Evrópusambandið því það hentar þeim ekki. Það hentar þessu kerfi að hér búi landsmenn við einokun og fákeppni þar sem kerfið og fyrirtæki í eigu þess geta rakað til sín fé með okurverðum og okurvöxtum. Sjálfstæðisflokkurinn er sverð og skjöldur þessa kerfis sem kristallast í varðstöðu þess flokks um óbreytt kerfi.

Það er verkefni Samfylkingarinnar í ríkisstjórn að breyta þessu áratuga gamla samtryggingarkerfi gömlu valdaflokkanna. Ég vona að flokkurinn missi aldrei sjónar á því hlutverki sínu.


Æ! Æ! Æ!

Ég beið eftir Kastljósi í gærkvöld og velti fyrir mér hvort þeir félagar Vilhjálmur og Bjarni væru búir að ræða sig að sameiginlegri niðurstöðu. Það var svo sannarlega ekki og ég verð að viðurkenna að ég fékk svona aulahroll niður eftir bakinu aftur og aftur.

Það var með ólíkindum að sjá þarna tvo af þekktustu mönnum þessa samfélags og vita svo óyggjandi var að annar hvor þeirra var að segja ósatt ( ljúga ). En hvor var sá seki í þessu tilfelli ? Ekki veit ég það frekar en aðrir en tilfinning mín var á annan veginn.

Er það trúlegt að fjárfestir fari ínn í slíkt samflot og fyrirtæki öðruvísi en ganga nokkuð tryggilega frá sínum málum ? Varla.

Er það trúlegt að boðið hafi verið upp á samstarf Orkuveitu og Rei í nokkrar vikur og mánuði í málaflokki eins og orkurannsóknum og orkuvinnslu. Varla.

Er það líklegt að menn hefðu keyrt þessi mál í gegn á stjórnarfundi Orkuveitunnar ef ekki hefði legið fyrir samþykki borgarstjóra og lykilmanna í stjórnkerfinu ? Varla.

Er það líklegt að önnur eins uppákoma og varð í borgarstjórnarflokki Sjalla hefði orðið ef allt hefði verið með felldu ? Varla.

Er það líklegt að menn hefðu birt minnisblað eins og það sem birt var í gær ef það hefði aldrei verið til ? Varla.

Hver er þá líkleg niðurstaða þessarra vangaveltna minna ? Borgarstjóri er annað hvort haldinn alvarlegum minnisbresti, ótrúlega kærulaus eða einfaldlega forhertur. Minnisbrestir eru líffræðilegt vandamál og ekkert við þeim að gera því miður. Kæruleysi er slæmur ávani og menn sem ekki skoða eða lesa gögn sem þeir ber eru líklega kærulausir. Þriðji kosturinn að borgarstjóri sé einfaldlega forhertur og hafi villt á sér heimildir sem "gamli góði Villi " er því líklegasta niðurstaða þessar vangaveltna.

Bjarna fjárfesti virtist illa brugðið og mér sýndist hann vera að kynnast alveg nýrri hlið á þessum trúnaðarmanni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir sögðu Sjálfstæðismenn þegar þeir mættu á blaðamannafund um daginn þegar þeim hafði verið skúbbað frá.

Munu Sjálfstæðismenn halda áfram að bakka upp fyrrverandi borgarstjóra. Það er eiginlega stóra spurningin í stöðunni núna. Ef svo fer hverfur trúverðugleiki borgarstjórnarflokksins og forustunnar endanlega í hugum þjóðarinnar.

Aðeins að bæta við smá niðurlagi. Frægur Framsóknarmaður notaði minnisleysi sem lausn aftur og aftur og margir muna enn fræg minnisgöp forsætisráðherra þess flokks seinni hluta síðustu aldar. Ef til vill er verið að reyna að keyra á þerri taktik í þessu máli og spurning hvort menn brosa bara góðlátlega eins og þegar sá ágæti forstætisráðherra gleymdi hlutum aftur og aftur


mbl.is Minnist þess ekki að hafa séð minnisblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli góði Villi ?

Nú er mér eiginlega öllum lokið. Fram að þessu hef ég helst trúað gamla góða Villa þegar verið er að tala um þessi mál. Kannski var hann bara einfaldur eða utan við sig en tvöfeldni eða óheiðarleiki datt mér ekki í hug. Ég var helst á því að gamli góði Villi hafi verið plataður af útsmognum fjármálamönnum sem kunnu trixin betur en borgarstjórinn.

En nú virðist sem karlinn hafi vitað þetta frá því í september og ég verð að segja það...hann er bara býsna góður leikari ef þetta er rétt sem fram kemur í frétt um að borgarstjóri hafi samþykkt ávæði um forgangsrétt Rei til tuttugu ára. Í fréttinni sem um ræðir segir.

"meðal annars kom fram að OR myndi beina öllum verkefnum erlendis til REI og að samningurinn sé til 20 ára, á löngum fundi á heimili borgarstjóra þann 23. september sl. Borgarstjóri lýsti sig samþykkan áformum um sameiningu REI og Geysi Green Energy á þeim forsendum sem í minnisblaðinu greinir."

Líklega var það hvalreki fyrir Reykvíkinga að Sjálfstæðismenn hrökkluðust frá völdum. Þetta hafa frálshyggjudindlanir félagar Vilhjálms í borgarstjórninni vitað og þess vegna fóru þeir og klöguðu í Geir stórapabba í Valhöll.

En svo átti bara að þegja þetta í hel eins og viðgengst oftast í Sjálfstæðisflokknum ef eitthvað er ekki eins og skyldi.


mbl.is Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir tapa ? Neytendur.

Deila Haga og Así er slæmt mál. Það eru fyrst og fremst neytendur sem tapa á slíkum uppákomum. Að Hagar skuli fara í fýlu og meina Así að gera verðkannanir er lítt þroskað viðhorf og þessum aðilum væri nær að ræða sig að niðurstöðu frekar en láta eins og smákrakkar í sandkassa.

Það er í sjálfu sér ekkert eðlilegra en félagsmenn aðildarfélaga Así taki sér frí frá Bónus og Hagkaupsheimsóknum meðan á þessu stendur. Así þarf líka að svara spurningum og láta það vera að snúa upp á sig eins og hanar á haug.

Þeir sem tapa á svona gloríum og barnaskap eru neytendur og sennilega Hagar því afstaða þeirra virkar aörugglega afar neikvætt á neytendur sem vilja gjarna vita hvað var kostar en er slétt sama um einhver smáatriði sem skipta í sjálfu sér afar litlu máli.

Undarlegt samt að Hagar fóru ekki í fýlu fyrr en annað fyrirtæki kom betur út en þeir. Kannski hafa þessar villur verið allan tíman og komið Högum til góða.....hver veit ?


mbl.is Hagar munu meina ASÍ að gera verðkannanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustdagar fyrir norðan.

StrandgötusýnÞað hafa verið frábærir haustdagar við Eyjafjörð að undanförnu. Fínn hiti og sunnan andblær. Nú er sem dragi úr því um sinn og norðangarrinn minnir á sig. Þó fer hitinn lítið niður og varla kemur frost sem kallast getur enn sem komið er. Það er af sem áður var í æsku minni að oft var snjór og frost í október.

Myndin sem hér fylgir með er tekin frá Strandgötunni og til suðurs. Sólin roðar skýin yfir Vaðlaheiðinni, Garðsárdalnum og Staðarbyggðarfjöllunum. Brúin fína sem sett var þarna fyrir allmörgum árum sómir sér vel og minnir aðeins á gömlu dagana þegar fimm brýr voru yfir læki og kíla á Strandgötunni.

Sumir hafa látið sér detta í hug uppfyllingar framan við Strandgötuna til að vinna land og fá viðlegukanta. Mér er það ljóst að slíkar hugmyndir setja þeir einir fram sem ekki hafa mikin skilning á því hversu þessi ásýnd og karakter bæjarins er mikilvæg í augum þeirra sem til þekkja. Það verður langt þangað til Akureyringar láta það viðgangast að frekari uppfyllingar verði gerðar sunnan við Oddeyrina.


Hvað breyttist ?

Ég blogga ekki mikið um íþóttir. Þó má ég til með að spá aðeins í landsleikinn við Letta í gær og velta því aðeins upp hvað var öðru vísi en í þeim tveimur leikjum sem við spiluðum vel og af baráttu. Spánverjar náðu jafntefli við okkur með harmkvælum og við unnum Norður Íra 2-1 á nokkuð sannfærandi hátt.

Liðið geislaði af leikgleði og hver maður barðist eins og ljón fyrir hverjum bolta og andstæðingunum enginn friður gefinn í vörninni. Miðjumennirnir voru eins og þeytispjöld fram og aftur og sóknin var snögg og beitt.

En svo kemur þessi leikur við Letta. Vörnin stöð, miðjumennirnir vinna varla bolta og sóknarleikurinn geldur og einhæfur. Baráttuandinn horfinn og leikmenn voru löngum tímum eins og áhorfendur.

En hvað var öðruvísi í þessum leik. Í fljótu bragði ekki margt. Þó var stærsta breytingin sú að Eiður Smári var kominn í fyrirliðastöðuna á ný og Hermann Hreiðarsson sem var fyrirliði í hinum tveimur leikjunum í leikbanni. Að öðru leiti var liðið lítið breytt nema hvað Helgi kom inn í sóknarleikinn í restina.

Þó það sé einföldun ætti landsliðseinvaldurinn að velta fyrir sér innkomu Eiðs Smára og gangi liðsins þegar hann er í hlutverki fyrirliða og spilar með. Þar með breytist allur leikur liðsins og það er eins og menn haldi að allt komið nú af sjálfu sér af því Eiður er mættur. Samherjar hans fara að leggja mesta áherslu á að Eiður fái boltann og þeir einhvernveginn hætta að taka almennilega á. Það má vel vera að þetta sé rangt en þó ekki verri skýring en hver önnur. Miðað við getu liðsins og baráttu í leikjunum við Spánverja og Norður Íra virðist vandinn fyrst og fremst sálrænn en ekki getulegur. Það væri ráð af velta fyrir sér stöðu fyrirliðans í því samhengi.


mbl.is Eiður Smári: Getum sjálfir okkur um kennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr Bændablaðinu. Lögbroti lýst af gleði !!

Félagi minn benti mér á efni í Bændablaðinu sem hann var afar hneykslaður á. Bændablaðið er oft með ágætis greinar og ábendingar um umhverfis og umgengnismál. Enn þetta innlegg sem ég ætla að skjóta inn hér er verðugt umhugsunarefni og ritstjóri blaðsins ætti að hugsa sig um tvisvar áður en hann birtir slíkt í blaðinu. Hér kemur innleggið.

Smá úrdráttur úr grein í bændablaðinu 9. október 2007.

Undir greinina skrifar Ívar Björgvinsson

 

Massey Ferguson pallbíll

  • Þetta tæki fékk ég lánað til að fara á móti gangnamönnum helgina 7. – 9. september.
  • Byrjaði á að fara upp bratta brekku með þúfum og fann þá strax hvað það munaði að  hafa fjaðrandi sæti.
  • Þegar þarna var komið var það verulega farið að koma á óvart  en þá var það skemmtilegasta eftir, prófa það í mýri. Ég byrjaði á smá mýrarbletti og hjólið fann ekkert fyrir því svo ég demdi mér á ferðinni í mjög blauta myri og viti menn, það sökk niður en reif sig bara uppúr eins og ekkert væri.
  • Fór svo í langferð.
  • Fór yfir mýrarpytti, garða og allt það sem ég þurftir að fara en varð stundum var við það að reka það niður þegar farið var upp á vegkant og þess háttar.
  • Smalaði heilan dag
  • Betra smalatæki vart hægt að hugsa sér.
  • Sæti fyrir konuna sem er stór plús.

Ég velti fyrir hvað þessi ágæti maður var að smala og prófa þetta tæki sem hann telur frábært. Það er allavegana ljóst að einhverstaðar sér þessara skemmdarverka merki í náttúrunni og það sem Bændablaðið er að lýsa er hrein lögbrot og ljótt að sjá á síðum þessa annars ágæta blaðs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband