Gleðilegt ár... þakka það liðna.

Red all over Það var fjör í Ránargötunni um miðnættið og veður allt skaplegra en gert var ráð fyrir. Himininn logaði en þó fannst mér sem ég hefði séð það meira.

Gleðilegt ár ... þakka það sem liðið er og kærar þakkir fyrir samkiptin á árinu. Við bloggarar fengum smá skammt í Skaupinu og það er vel að við gleymumst ekki eftir allt puðið á árinu. Tounge


Aðeins fjör í Silfrinu. Af "vinstri" og "hægri"

Það er lítið að gerast í pólitíkinni þessa dagana  og það var hressandi að fá smá fjör í Silfri Egils í dag. Þetta var að vísu hefðbundinn hanaslagur og ég hef alltaf jafn gaman af því að heyra hvernig afturbatajómfrúin Framsókn er búin að gleyma sínum þætti og staðreyndum sem hún ber ábyrgð á í núinu. Bjarni bóksali var þar enginn eftirbátur formannsins Guðna sem lagstur er í fortíðarhyggju og hefur gleymt veru sinni í ríkisstjórnum áranna.

Mest hissa var ég þó á Guðfríði Lilju frá VG sem virðist lifa í einhverjum sýndarveruleika. Hún var voðalega glöð með hversu samstæðir og góðir félagar hennar í Vinstri grænum væru. Allir aðrir við borðið voru sammála um að Vinstri grænir væru búnir að einangra sig með furðulegum, þröngsýnum og einstrengingslegum málflutningi. Komið í ljós að þeir voru ekki stjórnartækir, var niðurstaða varaformanns Sjálfstæðisflokksins.... ekki tíðindi fyrir mig í það minnsta því að mínu mati er glórulaust að ætla að reyna að hafa samstarf við Steingrím J og hans fólk. Til þess er kverúlantahátturinn allt of ríkjandi. Svona flokkur hefði kannski virkað á sjötta og sjöunda áratugnum en þó er mér það til efs. Það er ekki hægt að stjórna nútímasamfélagi með flokki sem hefur hugmyndafræði Vinstri grænna, því miður.

Eitt sem ég hjó eftir líka í þessu, að mörgu leiti skemmtilega Silfri, var orðalag Guðfríðar Lilju um Samfylkinguna. Kallaði hana stærsta vinstri flokkinn. Þetta lýsir ef til vill litlum skilningi á eðli og tilgangi Samfylkingarinnar. Auðvitað er það víðsfjarri að sú einföldun að kalla Samfylkinguna vinstri flokk eigi við. Samfylkingin er jafnarmannaflokkur sem er miklu víðtækara hugtak en eitthvað "vinstri" í pólitík. Jafnaðarmannaflokkar hafa breiða skírskotun langt út fyrir það sem tíðkaðist að nota á Íslandi um vinstri og hægri flokka. Ég skal alveg taka undir þá skoðun Guðfríðar Lilju að Samfylkingin er ekki vinstri flokkur og stóð aldrei til að búa til enn einn slíkan á Íslandi. Jafnaðarmannaflokkar eiga að vinna á miðju stjórnmálanna og sækja það besta til beggja handa. Það er þannig sem nútímalegu jafnaðarmannaflokkarnir á Norðurlöndum vinna og við eigum að vinna hér. Vinstri grænir mega alveg eiga þetta gamaldags "vinstri" fyrir mér. Meðan flokkurinn minn vinnur eins og alvöru jafnaðarmannaflokkur er ég sáttur og það er hann að gera í þessar nýju ríkisstjórn.


Flottur íþróttamaður.

Oft hef ég verið ósáttur við val á íþróttamanni ársins. Þó var kjörið á síðasta ári mjög sanngjarnt og til sóma. Alltaf er ég svolítið hræddur við það þegar íþróttafréttamenn eru að kjósa íþróttamann ársins. Stórstjörnudýrkun þeirra gengur úr hófi og það er eimitt það sem hefur gert það að verkum að mér hafa þeir stundum verið mistækir við þetta val.

En núna hitta þeir naglann þráðbeint á höfðuðið. Að mínu mati kom enginn, að öllum ólöstuðum, til greina í þessu vali nema Margrét Lára. Stórkostlegur íþróttamaður, hógvær, ákveðin og með sérstaklega fallega framkomu jafnt á velli sem utan hans.

Ég er sem sagt afar glaður fyrir hönd íslenskra íþrótta og sérstaklega að kvennaknattspyrnan hafi loks fengið þá athygli og sóma sem er auðvitað hluti af þessu vali.

Til hamingju Margrét Lára.


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styðjum björgunarsveitirnar.

Nú eru áramótin framundan. Ein helsta fjáröflun björgunarsveitana er flugeldasala. Björgunarsveitirnar nota síðan þá fjármuni sem þær hafa upp úr krafsinu til að fjármagna tækjakaup og starfssemi sveitanna. Þær gegna lykilhlutverki í þjóðfélaginu og félagsmenn vinna þúsundir vinnustunda í sjálfboðavinnu við að gæta borgaranna og eigna þeirra. Skemmst er að minnast óveðurskaflans fyrir skömmu þegar sveitirnar stóðu vaktina sólarhringum saman.

Það hefur færst í aukana undanfarin ár að einstaklingar og fyrirtæki hafa sótt í auknum mæli inn á þennan markað og sumir hafa meira að segja reynt að undirbjóða björgunarsveitirnar og því miður oft með vörum sem standast síður gæðakröfur sem verður að gera til slíkst varnings. Eiginlega er ég svolítið hissa á mönnum sem reyna að hafa viðskipti af björgunarsveitunum í krafti fjármagns og viðskipta.

En þetta er land frjálsrar samkeppni og varla hægt að fara fram á að menn sýni samfélagslegt siðferði og láti björgunarsveitunum eftir þennan markað. Til þess er gróðavonin of sterk.

Það sem við getum gert, landsmenn, sem njótum þjónustu björgunarsveitanna jafnt að nóttu sem degi, alltaf þegar á þarf að halda, er að beina viðskiptum okkar þangað.

Ég hef alltaf skilyrt fjárframlög til barnanna minna með því að þau versli við björgunarsveitina Súlur á Akureyri. Það eiginlega þurfti ég  þess ekki því þau hafa verið mjög meðvituð um hvar fjármunum til þessarra hluta er best varið.

Mín einlæg ósk er að menn hugi að því hvar flugeldar eru keyptir og minnist þess hversu mikilvægar björgunarsveitir landsins eru okkur öllum.


mbl.is Hörð samkeppni í flugeldasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðarmál og aðgerðir.

Skipulagsnefndin þar sem ég er formaður hefur verið að velta fyrir sér umferðarmálum norður úr bænum. Allir sem til þekkja vita af þeim mikla vanda sem Hörgárbrautin...Þjóðvegur 1 í þéttbýli skapar íbúum í Holtahverfi. Hverfið er umlukt götum sem á er mikil þungaumferð og löngu tímabært að huga að þeim málum á svæðinu. Umferð um Krossanesbraut austan hverfisins er líka sívaxandi.

Eftir að strandsiglingar hættu hefur umferð gríðarlega þungra flutningabíla aukist stórlega. Leiðir þessara bíla til og frá bænum eru nokkuð tilviljanakenndar og valkostir fyrir bílstjóranna nokkrir.

Hörgárbrautin er stóri vandinn þarna og ekki verður komist hjá því að taka á þeim vanda með einhverjum hætti. Talað hefur verið um undirgöng og sumir hafa nefnt brú... sem er varla kostur í norðlensku vetrarveðurfari. Hvað sem því líður hefur nú verið stigið það skref að leita leiða til að leysa þennan vanda á varanlegan hátt. Á síðasta fundi skipulagsnefndar fyrir jól var eftirfarandi bókun gerð.

.  Krossanesbraut, Undirhlíð. Umferðarmál.
SN070140
Formaður skipulagsnefndar leggur til að umferð á og við Krossanesbraut og Undirhlíð verði tekin til skoðunar með mögulegri stýringu eins og gert var á Mýrarvegi.
Skipulagsnefnd felur skipulagsstjóra að koma umferð norður úr bænum í heildarskoðun. Hugað skal að leiðum þungaflutninga og leiðum gangandi. Þær leiðir sem skoða skal eru Hörgárbraut - Tryggvabraut - Krossanesbraut - Óðinsnes - Laufásgata - Undirhlíð og Hlíðarbraut. Hafa skal samráð við Vegagerðina og framkvæmdaráð.

Vonandi finna menn góðar lausnir á þessum vanda sem er sannarlega þarf að finna á lausnir. Hvort niðurstaðan leiði til undirganga á fleiri en einum stað á þessu svæði verður að koma í ljós. Þennan vanda verður að leysa og ekki er hægt að láta þessi mál bíða öllu lengur enda er umferð á þessu svæði komin á efri mörk þess sem þolandi er miðað við óbreyttar aðstæður.


Gleðileg jól.

Gleðileg jól Ég óska ölllum nær og fjær gleðilegra jóla með ósk um lukku og vellíðan um hátíðirnar.

Hér var kyrrlátt jólaveður og föl á jörðu sem gerði þessa kyrrlátu stemmingu enn þægilegri.

Húsið á myndinni er Aðalstræti 66a sem byggt var 1845 eftir því sem næst verður komist. Flest bendir til að þarna hafi verið smiðja í upphafi. Talað er um Smiðjustíg þarna í gömlum heimildum og tengist það vafalaust þessu húsi. Húsinu er vel viðhaldið og það er til mikils sóma og mjög áberandi í gamla Innbænum.


Siðblindur - siðlaus - hlýðinn ?

Ég er svo aldeilis hissa. Árni dýralæknir belgir sig eins og hani á haug og rífur kjaft upp í opið geðið á þjóðinni sem á ekki til eitt einasta orð af hneykslan.

Þorsteinn Davíðsson var eins og annar frambjóðandi tveimur gæðaflokkum neðan við þá þrjá sem hæfastir voru taldir. Frambjóðandinn sem raðaðist jafngildur Þorsteini er kona og situr því fyrir embættinu samkvæmt jafnréttislögum þannig að þó svo allir hinir þrír hefðu ekki verði með hefði Þorsteinn átt að falla fyrir konu í vali ráðherra samkvæmt lögum. Hann var því sannarlega neðstur umsækenda ef alls réttlætis er gætt.

Ráðherrann veit víst best allra og það sem verra er... hann veit greinilega allt annað en allir aðrir. Nú velti ég því fyrir mér hvert þessrara atriða eru að trufla Árna Mathisen fjármálaráðherra.

Siðblinda .. vonandi ekki    Siðleysi.. svo sannarlega vonandi ekki...hlýðni.... það held ég næstum örugglega því honum var að sjálfsögðu skipað að velja Þorstein. Bíbí frændi og stóri stákurinn undir Svörtuloftum gæta sinna og þeir ætla sér að tryggja Þorsteini þægilegt vel launað jobb og þá getur dýralæknirinn sjónumhryggi bara hlýtt. Þessum mönnum þorir enginn að óhlýðnast í Sjálfstæðisflokknum..og ekki þvælist það fyrir þeim að gæta réttlætis ef á þarf að halda.


mbl.is Árni segist munu skila ítarlegum rökstuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól farin að hækka á ný.

The moument of lowest sun Í dag fór sól að hækka á ný. Ég var ákveðinn í að festa á mynd fyrsta mögulega augnablik eftir að sólin færi að hækka. Félagi minn Gísli Baldvinsson staðfesti við mig nákvæman tíma þess, að það gerðist, klukkan 12.52. Þessa mynd tók ég svo klukkan 13.49 þegar sólin rétt náði að gægjast upp fyrir fjöllin í Eyjafjarðarsveit.

Dásamlegt andartak á dásamlegum degi. Og nú er orðið stutt í vorið.


Fjölmiðlar...ég var með saltfisk í matinn.

Mér finnst þetta ekki sanngjarnt. Mér finnst ekkert varið í skötu og eiginlega finnst mér hún hálfgert ómeti. Samt hafa fjölmiðlar ótrúlegan áhuga á þessu slori og taka langan tíma um að bulla og skrifa um þetta á hverju einasta ári. Fréttamenn geta bara notað "copy paste" frá ári til árs.

Halda fréttamenn að fólki finnist þetta skemmtilegt eða er þetta bara einfalt uppfyllingarefni ? Ég hef stundum velt þessu fyrir mér og kannski veit einhver þetta.

Svona til fróðleiks. Ég var með saltfisk í matinn...og hann var ágætur. Þegar fjölmiðlar eru búnir með skötuumræðuna er ég tilbúinn að ræða saltfiskinn sem er enn þjóðlegri matur en hin svæðisbundna skata....


mbl.is Skatan vinsæl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skötulyktin úr Valhöll og dómsmálaráðuneyti

Enn leggur skötu og hákarlslykt úr Valhöll Sjálfstæðismanna og úr Dómsmálaráðuneyti Bíbí frænda. Sjálfstæðismennirnir halda áfram að raða lítt hæfum ættingjum SÓLKONUNGSINS í dómskerfið á Íslandi.

Bíbí frændi skýtur sér samt undan að raða syninnum lítthæfa og fær til þess dýralækninn talnaglögga sem lætur almennt siðgæði ekki þvælast fyrir sér við þessa ráðningu.

Til hvers er verið að láta einhverja nefnd fagmanna fjalla um svona mál þegar afkomendur og frændur SÓLKÓNGSINS sækja um. Það væri miklu þrifalegra að láta þá fá þetta strax, þá kæmi ekki fram að þeir eru ofast minnst hæfir af umsækendum.

Skötulykt er kannski ágæt ef mönnum líkar hún á annað borð en þessi skötulykt sem leggur úr hirslum Sjálfstæðisflokkins er annarrrar náttúru.....hreinræktuð skítalykt.

En tíminn er sniðulega valinn....rétt fyrir jól og umræðan deyr fljótt.


mbl.is Þorsteinn Davíðsson skipaður héraðsdómari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband