Bygging Heilsugæslu við Þingvallastræti í uppnámi ?

20220129-IMG_0189Ýmislegt bendir til að bygging heilsugæslustöðvar við Þingvallastræti sé í uppnámi. Ekki verður annað séð en Skipulagsráð og Framkvæmdasýsla ríkisins séu fullkomlega ósammála grundvallaratriði. 

 

Bærinn vill bílakjallara en eigandinn ekki. Allir sem til þekkja vita að takmarkað svæði fyrir bílastæði á þessu svæði, nema þá að seilast lengra inn á svæðið til suðurs sem er ætlað til annarra hluta.

 

Akureyrarbær muni ekki bakka frá þeirri ákvörðun að þarna verði bílastæði í kjallara. Nábýli við nokkuð stórt hótel krefst þess að þarna verði leitað nútímalega lausna.

 

Ef ríkið bakkar ekki frá kröfu sinni um bílastæði ofanjarðar er þessu verkefni líklega sjálfhætt á þessum stað.

 

Hér að neðan er bókun skipulagsráðs.

 

Þingvallastræti 23 - breyting á deiliskipulagi Málsnúmer 2022030795

 

Erindi Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna (FSRE) dagsett 16. mars 2022 þar sem óskað er eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi sem nær til lóðarinnar Þingvallastrætis 23, þ.e. lóðar fyrirhugaðrar heilsugæslu suður. Er óskað eftir því að ekki verði gert ráð fyrir bílakjallara og bílastæðum ofanjarðar fjölgað þess í stað. Eru lagðar fram tvær tillögur að mögulegri breytingu.

 

Skipulagsráð lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé vilji til að gera ráð fyrir bílakjallara undir heilsugæslunni eins og miðað hefur verið við frá því að skipulagsvinna á svæðinu hófst veturinn 2020-2021. Að mati skipulagsráðs er bílakjallari forsenda fyrir byggingu heilsugæslustöðvar á þessu svæði.

 

Skipulagsráð hvetur hlutaðeigandi eindregið til þess að að gera ráð fyrir umræddum kostnaði við uppbyggingu heilsugæslunnar svo ekki verði tafir á framvindu verkefnisins enda ótækt að heilsugæslan búi lengur við núverandi húsnæðiskost. Skipulagsráð hafnar því ósk um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar.

 

Ákvörðunin er fullnaðarafgreiðsla með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar nr. 1674/2021.


Vandræðin með heimilislækna á Akureyri.

800px_COLOURBOX13882069Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðis- þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Svo segir í lögum um heilbrigðisþjónustu Opnast í nýjum glugga. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, lækninga, hjúkrunar, almennrar og sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu, sjúkraflutninga, hjálpartækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.

  

Heilsugæslan veitir öllum heilbrigðisþjónustu. Þar getur almenningur gengið að vísri þjónustu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar, bráðaþjónustu, heilsuverndar og forvarna og fengið ráðgjöf og leiðbeiningar.

( Af síðu landlæknis )

 

Aðeins um Akureyri og þá þjónustu sem er í boði í 20.000 manna bæjarfélagi sem auk þess sinnir fjölmennum byggðum í Eyjafirði.

Þjónusta á flestum sviðum er til fyrirmyndar, þó mætti undanskilja einhverja þætti sem ekki verða gerðir að umræðuefni í þessu stutta bloggi.

 

En vildi aðeins nefna þjónustu heimilslækna og Heilsugæslu hvað þann þátt varðar. Það virðist algjörlega vonlaust að fá fastan heimilislækni á Akureyri. Hvað mína fjölskyldu varðar fór heimilslæknir hennar á eftirlaun fyrir nokkrum árum og allar tilraunir til að bæta þá stöðu hafa ekki tekist. Stutta svarið er " því miður enginn tiltækur " Þannig hefur það verið í nokkur ár og enga líkur til að það breytist. Við erum því án þeirrar eðlilegu þjónustu að hafa heimilislækni tiltækan. Sé ekki annnað en það verði þannig næstu árin. Mikið saknar maður þeirrar frábæru þjónustu sem við fengum hjá gamla lækninum okkar.

 

Að mínu mati eru það skert lífsgæði og vond heilbrigðisþjónusta að hafa ekki aðgengi að föstum heimilslækni. Boðað er að á Akureyri verið tvær heilsugæslustöðvar á næstunni en vandséð er að það breyti nokkru hvað varðar þennan viðvarandi læknaskort. Af hverju læknar vilja ekki starfa á Akureyri er spurning sem stjórnvöld ættu og þurfa að rýna.

 

Að íbúar stærsta sveitarfélags á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins búi við læknaskort ætti að vera rannsóknarefni fyrir Landlækni.

 

Kannski breytist þetta í framtíðinni en það breytir því ekki að núverandi ástand er óboðlegt og lítið aðhafst til að laga það.


Hverfisnefndir - getum við gert betur ?

119433298_10158782627705126_981781565785471429_nFyrir áramótin síðustu skrifað ég lítinn pistil inn á síðu Hverfisnefndar Oddeyrar. Hluti hans var á þessa leið.

  

Fyrsta hverfisnefndin verður 20 ára á næsta ári. Hverfisnefnd Oddeyrar. Tímabært að spyrja bæjaryfirvöld spurninga á kosningaári og tuttugu ára afmæli nefndarinnar.

  • Hvernig hefur til tekist ?
  • Eru bæjaryfirvöld að hlú nægilega að hverfisnefndum ?
  • Fá nefndirnar öll þau mál sem þær eiga að hafa skoðun á ?
  • Eru uppi áform um að efla hverfisnefndir og auka skyldur þeirra ?
  • Ættu nefndarmenn að vera launaðir eins og þekkist hér út með firði.?

Það væri vel við hæfi að stjórn Hverfisnefndar Oddeyrar tæki þann bolta að hefja skoðun og umræður við bæjaryfirvöld um þessi mikilvægu málefni. Vilja ekki allir auka íbúalýðræði enn meira ?

___________________________

Svo mörg voru þau orð. Að mínu mati er tíminn NÚNA ef vilji er til að efla hverfisnefndir bæjarins, ef til vill að endurskipulega þær, t.d. hugleiða eru núverandi nefndir að þjóna svæðum á fullnægjandi hátt, er t.d. tímabært að stofna nýja nefnd sem sérstaklega fyrir Innbæinn, það hefur stundum verið nefnt að Brekkan og Innbærinn hafi ekki sérsaka samlegð og hagsmunir ólíkir. Það er umræða sem á eftir að taka.

 

Sumir hafa haft á orði að áhugi bæjaryfirvalda á starfi nefndanna hafi dalað og utanumhald minkað. Ætla ekki að hafa á því skoðun hér en sannarlega er starf nefndanna ekki í brennidepli bæjarmálaumræðunnar. Það er því tímabært á tuttugu ára afmælinu að taka markvissar ákvarðanir.

 

Annað hvort leggjum við niður nefndirnar ( sem er vond hugmynd ) eða eflum starf þeira, aukum hluverk nefndanna og launum stjórnir þeirra sbr. nefndir hér úti með firði.

 

Þegar horft er til höfuðborgarinnar eru hverfisráðin öflugur hluti stjórnsýslunar í höfuðborginni, sannarlega hafa meira hlutverk en hverfisnefndirnar á Akureyri. Þessu getum við breytt er vilji er til. Vilji er allt sem þarf.

 

Hverfisnefndir geta verið mikilvægur hluti stjórnsýslunnar og lykill að auknu íbúalýðræði. Vonandi mun verða horft til þess að auka það með stefnubreytingu í starfi nefndanna í framtíðinni. Við kjósum í vor og vonandi sjáum við merki þess í stefnuskrám flokkanna að hugur stjórnmálamanna stefni til aukins áhuga á íbúalýðræði með meiri stefnufestu í málefnum hverfisnefnda og meiri jákvæðni og áhuga en við höfum séð að undanförnu.

 

Áfram Akureyri.

 

 

 


Aðeins um bæjarstjórn og bæjarstjórnarkosningar.

 

Listi Samfylkingarinnar á Akureyri 2022

 

Enn og aftur eru bæjarstjórnarkosningar framundan.

 

Undirritaður hefur ekki verið á framboðslista síðan 2006 - 2010, en það kjörtímabil var ég varabæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar og fleira. Síðan hef ég haft nokkuð hljótt um mig í bæjarmálunum.

 

Þó hef ég sem einstaklingur verið að blanda mér í umræðu um skipulagsmál og fleira. Sannarlega var ég ekki mesti aðdáandi samkrullsins í bæjarstjórninni á síðasta kjörtímabili þó svo sumir hafi haft jákvæðar skoðanir á sumum atriðum. Það sem hefur verið hvað síst við þetta samkrull eru áhrif Sjálfstæðismanna í öllum flokkum til neikvæðrar umræðu og niðurstöðu. Áhrif þeirra hafa verið skaðleg fyrir ásýnd og stefnu bæjarstjórnarinnar.

 

Ekki þannig að allt gengi í gegn, það tókst að stöðva byggingu háhýsa á Oddeyri sem er vel. Stóra kattamálið er vont dæmi þar sem íbúasamráð og umræða var enginn. Það má enn vinda ofan af því máli enda botnlaust klúður eins og að því var staðið.

 

Nú stendur yfir slagur um vond áform í Spítalabrekkunni sem leidd er af formanni skipulagsráðs og vaðið áfram í stjórnleysi og sannarlega má segja að vinnubrögðin í tengslum við val á verktaka ( VERKTAKINN EINI ) var til skammar, og bærinn er ekki búinn að bíta úr nálinni með það. Margir hafa haft það á orði og aðferðafræðin sé brot á reglum bæjarins um úthlutun lóða.

 

Í dag spyr Hildur Friðriksdóttir formann skipulagsráðs krefjandi spurninga og vafalaust svarar hann þeim. Þær spurningar eru á fésbókarsíðunni..sjá slóðina.

Björgum spítalabrekkunni.

 

 

En aftur að upphafinu. Ég tók sæti á lista í fyrsta sinni langan tíma og mun reyna að miðla af reynslu minni í bæjarmálum síðust þrjá áratugi. Kallinn í 20. sæti er ekki að mæta til leiks í nefndum og ráðum enda enginn þörf á slíku. Listinn er mjög vel mannaður, segi með því besta sem ég hef séð í þessu frá upphafi. Hilda Jana verður reynslumesti bæjarfulltrúinn. Hvað varðar meirihlutamyndun verður vafalaust horft til samvinnu, samráðs og íbúalýðræði. Það er sannarlega ekki eitthvað sem sumir flokkar í bæjarstjórn Akureyrar eru góðir í, sannarlega ekki Sjálfstæðisflokkurinn.

 

Allt sem ég segi hér er komið frá eigin brjósti og ábyrgðin er mín og engra annarra. Enn sem komið er.

 

Að lokinni stefnumörkun mun ég fjalla meira um það sem gera skal og hvernig á næsta kjörtímabili. Íbúasamráð og samvinna verða örugglega þar ofarlega á blaði.

 


Stóra kattamálið og sambandsleysi bæjarstjórnar.

jólin 2012-4772Meiri­hluti lands­manna er hlynnt­ur lausa­göngu katta í sínu sveit­ar­fé­lagi sam­kvæmt nýtti könn­un Maskínu. Þar kem­ur fram að 64,9 pró­sent svar­enda í könn­un­inni sögðust vilja leyfa kött­um að vera laus­ir ut­an­dyra í sínu sveit­ar­fé­lagi og 34,1 pró­sent sögðust ekki vilja það.

(mbl.is)

 

Það er mikill kostur þegar kjörnir fulltrúar eru í góðu sambandi við kjósendur sína og taki tillit til vilja og þarfa þeirra við ákvarðanir sínar,en til þess þarf að vera vel tengdur.

 

Stóra kattamálið vakti mikla athygli á landsvísu en þá ákvað meirihluti bæjarstjórnar að banna lausagöngu katta á Akureyri frá og með 2025. 

 

Við slíka ákvörðun mætti áætla að bæjarfulltrúum væri vel kunnugt um vilja kjösenda þegar svo dramatískar ákvarðanir eru teknar.

 

Var það svo hjá meirihluta bæjarstjórnar í stóra kattamálinu ?

 

Nei, sannarlega ekki.

 

Ný könnun Maskínu sýnir að 65% eru samþykkir lausagöngu katta og 35% á móti því.

 

Það er því ljóst að vilji meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar er ekki í neinum takti við kjósendur. 2/3 hlutar kjósenda eru ósammála meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri. Það er aldrei gott fyrir kjörna fulltrúa að vera ekki í meira sambandi.

En nú skal kosið í vor og flestir núverandi bæjarfulltrúa ætla að hætta. Það er því góð von að inn í bæjarstjórn á Akureyri komi nýjir bæjarfulltrúar sem eru í meira sambandi við kjósendur sína.

 

Líklegt er að þessari umdeildu ákvörðun verði breytt.

 

Áhugamenn um þessi mál munu vafalaust kalla eftir skoðun frambjóðenda í vor.

 


Enn af íbúalýðræði og verktakalýðræði.

20211224-IMG_0226

 

Mikill fjöldi ábendinga bárust vegna fyrirhugaða aðalskipulagsbreytinga við Tónatröð, 113 ábendingar bárust. Nú bíður það bæjarstjórar á íhuga framhaldið.

 

Nú eru rúmlega þrír mánuðir í að bæjarfulltrúar þurfi að endurnýja umboð sitt. Kosið verður til bæjarstjórnar í maí. Fyrir liggur að stór meirihluti bæjarfulltrúa ætla að hætta og gefa ekki kost á sér. Líklega verður það aðeins einn bæjarfulltrúi af þeim sex sem settu málið á koppinn í vor sem leið ef hann nær kosningu.

 

Ef bæjarfulltrúum væri annt um íbúalýðræði og eðlilega stjórnsýslu þá mundu þeir ákveða að setja Tónatröðina á ís og láta nýjum bæjarfulltrúum það eftir að ákveða framhaldið. Hér er um að ræða mjög umdeilt mál og því væri það afar vond skilaboð ef fráfarandi bæjarfulltrúar, eftir þrjá mánuði, væru að taka ákvörðun í þessu umdeilda máli. Eiginlega arfa slæm stjórnsýsla.

 

Það er því líklegt við sjáum þessu máli frestað inn í nýtt kjörtímabil. Annað væri eiginlega óhugsandi. Gæti orðið eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni.

 

Bæjarbúum er umhugað um vandaða stjórnsýslu og fúsk eins og sést hefur í Tónatraðarmálinu er þeim lítt að skapi. Niðurstaðan af þessi miklu þátttöku í athugsemdamálinu ætti að gera bæjaryfirvöldum og kjörnum fulltrúum að framhald þessa máls muni valda bæjarfulltrúum hugarangri og líklegt að þegar þar að kemur óski bæjarbúar þess að um þetta mál verði kosið eins og gert var á Oddeyri.

 

Það er virkt íbúalýðræði að bæjarfulltrúar vísi umdeildum málum til bæjarbúa til umsagnar. Ef skipulagsmál við Tónatröð halda áfram þá mun verða um þau kosið í íbúakosningu beri komandi bæjarfulltrúar virðingu fyrir kjósendum sínum.

 

Við þurfum sárlega á því að halda að stjórnsýslan á Akureyri sé vandaðri og betri en sést hefur á þessu kjörtímabili, sérstaklega eftir að enginn meirihluti var til staðar. 

 

Akureyri.net

Næstu skref eru þau að skipulagsráð og bæjarstjórn þurfa að taka afstöðu til áframhaldandi skipulagsvinnu í ljósi þeirra ábendinga og umsagna sem bárust. Í vikunni bárust niðurstöður jarðvegsrannsókna á svæðinu og hafa þær verið sendar Veðurstofu Íslands til umsagnar. „Veðurstofan er sá óháði aðili sem sér um að meta hvort að framkvæmdir á þessu svæði geti orðið fyrir eða jafnvel haft neikvæð áhrif á ofanflóð og skriðuhættu,“ segir á vef bæjarins.


Spítalabrekkan - hvað gerðist ?

000 2021 19.11. snjor-0207Margir hafa furðað sig á fyrirhugaðri risaframkvæmdum á viðkvæmu svæði í Innbænum. Svæði sem er mikils virði fyrir sögu og ásýnd Akureyrar.

 

Hvað gerðist eiginlega spyrja margir sig ?

 

Málið á uppruna í ákvörðun bæjarstjórnar að hætta með formlegan meirihluta og bjóða þeim flokkum sem áður stóðu utan meirihlutans aðkomu að stjórn bæjarins með formlegum hætti. Þá var ákveðnum flokki boðin nokkur formannssæti í nefndum og þar á meðal í Skipulagsráði.

 

Því hefur verið haldið fram að nýr formaður Skipulagsráðs hafi haft samband við verktakann SS byggi og bent honum á þetta svæði þar sem skipulag gerði ráð fyrir fáeinum einbýlishúsum samkvæmt deiliskipulagi frá 2009.

 

SS byggir hefur staðfest þetta og segist ekki hafa haft frumkvæði að þessari hugmynd. Það staðfestir þessar sögusagnir að formaður Skipulagsráðs hafi boðið verktakanum svæðið.

 

Skipulagsráð og bæjarstjórn afhentu síðan SS byggi svæðið án auglýsingar og úthlutuðu honum veiðileyfi á Spítalabrekkuna. Auðvitað sá allir að þetta er óboðleg stjórnsýsla og nánast hægt að kalla þetta spillingu. Í reynd ætti að afturkalla þennan gjörning og auglýsa svæðið með formlegum hætti. Þannig er þetta gert þegar eðlileg vinnubrrögð eru í heiðri höfð. Ljóst er að ef meirihlutinn hefði ekki verið leystur upp og gamli meirihlutinn hefði verið við stjórn hefði þetta verklag aldrei viðgengist

 

Það er því að mínu mati á ábyrgð þess flokks og formanns Skipulagsráðs að mál þarna eru í fullkomnu uppnámi. Hinir spila svo með sem er miður.

 

Ef væri snefill af skynsemi í bæjarstjórn Akureyrar ætti að blása af þessi áform og koma málum í eðlilegan farveg í Spítalabrekkunni.


Að ganga erinda verktaka.

000 2021 19.11. snjor-0252Skipulagsmál eru á forsjá bæjaryfirvalda og það er hlutverk þeirra að gæta hagsmuna bæjarbúa og sveitarfélagins. Að útvista málefnum til verktaka er hörmulegt vinnulag og til lítils sóma.

 

Einhver bæjarfulltrúi hefur líklega haft samband við ákveðinn verktaka hér í bæ og afhent honum veiðleyfi á gamla og gróna byggð sem hefur mikla þýðingu fyrir ásýnd Akureyrar og á svæðinu einnig merk saga Sjúkrahússins á Akureyri. 

 

Þar standa þrjú hús sem eru stór hluti sjúkrahússsögu Akureyrar. Sóttvarnahúsið byggt 1905 og er friðað og auk þessi yngri hús, Litli Kleppur eins og húsið var kallað og Stekkur sem var byggt á sínum tíma sem viðbót við sjúkahúsið á Akureyri. Samkvæmt útvistun bæjarstjórnar til SS eiga öll þessi hús og hverfa og reisa þar fjölbýlishús í allt öðrum stíl. 

 

Að meirihluti bæjarstjórnar ætli að gefa grænt ljós á áframhald með að heimila auglýsa breytt aðalskipulag má með réttu jafna saman við áform Reykjavíkur á sínum tíma að rífa Bernhörfttorfuna. Smekklaust inngrip í svæði sem hefur mikilvægt hlutverk í bæjarmyndinni og sögunni.

 

Ég leyfi mér að vera svo bjartsýnn að meirihluti bæjarstjórnar hætti þarna, og ákveði að heimila ekki breytingu á aðalskipulagi, en halli sér frekar að því styðja við framkvæmdir samkvæmt gildandi skipulagi. Þar er gætt samræmis og ásýnd svæðis virt og gengið af skynsemi um gleðinnar dyr. Sumir gætu séð ljósið með að hugsa aðeins dýpra,

 

En hefur skipulagsráð ekki upplýst bæjarbúa um það hver það var sem hafði samband við verktakann og bauð upp í þennan fáránlega og ábyrgðarlausa dans. Enn auglýsi ég því eftir að bæjarfulltrúinn sem kom þessari vitleysu af stað stígi fram og upplýsi okkur bæjarbúa hvað þarna býr að baki.

 

Sannarlega er mér óskiljanlegt að bæjarfulltrúar á Akureyri ( sem flestir ætla að hætta ) skuli ganga fram með þessu ömurlega hætti. Það eru fleiri en ég sem skilja þetta ekki.

 


Kattafár bæjarstjórnar Akureyrar.

000 paEnn og aftur hefur brotist út styrjöld milli meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar og bæjarbúa. Margir muna stríð bæjarfulltrúa við bæjarbúa þar sem troða átti háhýsum á Oddeyri ofan í kok bæjarbúa með góðu eða illu. Sem betur fer höfðu bæjarbúar betur í því stríðið.

 

Nú er annað stríð sambærilegt við Tónatröð í Innbænum þar sem svipað er uppi á teningnum, þar ætla sumir bæjarfulltrúar að bakka upp skaðlegar hugmyndir verktaka á einu helsta menningarsvæði bæjarins ofan Spítalavegar. Það stríð er nú að hefjast og bæjarbúar eiga eftir að sjá hversu langt bæjarfulltrúar ætla að ganga við að troða inn þeim framkvæmdum sömu leið og Oddeyrartillögum.

 

Nýjasta stríð meirihluta bæjarfulltrúa við bæjarbúa kristallast í stóra kattamálinu þar sem sjö af ellefu bæjarfulltrúum eru búnir að ákveða að lausir kettir verði banaðir í lok næsta kjörtímabils eða 2025. Auðvitað nær umboð núverandi bæjarfulltrúa ekki þangað og líklegast er að þessi gjörningur verði ógiltur löngu áður.

 

En það breytir því ekki að þetta er ófaglegur gjörningur, án nokkurrar umræðu og án nokkurs samtals við bæjarbúa. Sannarlega ömurlega vond vinnubrögð og bæjarfulltrúum sem það studdu til lítils sóma. Í gildi er reglugerð um kattahald á Akureyri sem samþykkt var fyrir nokkrum árum. Allir vita að eftir þessu samkomulagi hefur ekkert verið farið og bæjaryfirvöld hafa í engu sinnt eftirfylgni við þá reglugerð. Þar hefur ríkt algjört tómlæti og engin umræða hefur átt sér stað. Fagleg nálgun hefði verið að taka upp umræðu um þá reglugerð og meta árangur og skoða úrfærslu og bæta úr því sem miður hefur farið þar. Svona á að ræða og ákvarða í nefndum bæjarins þar sem við á en taka ekki ófaglegar, illa ígrundaðar ákvarðanir í fljótræði og án umræðu við bæjarbúa og fagaðila.

 

Meirihluti bæjarstjórnar á Akureyri gerði mistök í stóra kattarmálinu. Þar voru tilfinningar augnabliksins látnar ráða, bæjarfulltrúar tók vonda ákvörðun sem byggði á hvað þeim fannst á því augnablik og fóru í enn eitt stríðið við stóra hópa í bæjarfélaginu.

 

Margt fleira væri hægt að segja en læt staðar numið að sinni.

 

Sjö bæjarfulltrúar fóru í stríð með engin vopn í vopnabúrinu og ákvörðun þeirra hefur verið úthrópuð um land allt. Kannski hafa þeir rýrt álit landsmanna á Akureyri.. Skal ekki neitt um það segja en slæmt væri sé svo.

 

Þetta voru alvarleg mistök og bæjarfulltrúar væru menn að meiri með að ógilda þessa ákvörðun og vísa umræðunni til nefnda bæjarins og bæjarbúa.

 

Ekkert að því að viðurkenna mistök.

 


Oddeyrin - jákvæðar hugmyndir upp uppbyggingu.

2021 ngtÞað er sem mál á Oddeyri hvað varðar uppbyggingar á auðum lóðum séu komin á hreyfingu. Nýverið var auglýst til sölu hús sem hugmyndin væri að reist yrði á lóðinni Lundargötu 13 þar sem lengi hefur staðið autt hús sem er ónýtt og vonlaust er að endurbyggja. Gert er ráð fyrir að nýtt hús væri alveg á pari við það gamla. Hef ekki heyrt meira af því máli nýlega en sannarlega var verðið sem tilgreint var nokkuð hátt miðað við verð húsnæðis á Akureyri.

 

2021 ngt2

 

 

 

 

 

Nú hafa enn á ný vaknað hugmyndir um nýtt hús við Norðurgötu á lóðum sem hafa sumar staðið auðar frá því 1944 þegar til stóð að byggja upp í samræmi við aðalskipulag frá 1927. Af því varð ekki og síðan hafa þessar lóðir verið bíla og snjógeymsla hverfisins. Ekki sómi að.

 

Síðan þá hafa bæst við tvær auðar lóðir í línunni, lóðir nr. 3 og 5 þar sem rifið var hús og annað brann 2019. Þar með var skarðið í húsalínu Norðurgötu orðið óþægilega stórt. Þessar hugmyndir um uppbyggingu eru því kærkomnar og vonandi kemst þetta á koppinn eftir ekki allt of langan tíma.

 

Málið er á frumstigi og nú þurfa bæjaryfirvöld að vinna hratt og örugglega því svona mál leggjast auðveldlega í dvala er hægt gengur. 

 

Það er því von okkar Eyrarpúka að þessar gömlu auðu lóðir byggist á ný með húsum við hæfi og fólki fjölgi á ný á þessum svæðum sem sannarlega mega muna fífil sinn fegurri.

 

Það sem helst skortir á er að Akureyrarbær taki frumkvæði og taki þá í endurreisn syðri hluta Oddeyrar, á það hefur sárlega vantað í áranna rás.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 819089

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband