Linduveðrið - minning sem lifir.

Fortíðin stendur manni ekki ljóslifandi fyrir sjónum sem ein samfelld heild. Þó eru atburðir sem rifjast upp og verða skýrir í minningunni ef maður sér myndir eða á samtöl við einhvern sem man. En einn þeirra atburða sem standa manni alltaf ljóslifandi fyrir sjónum eins og gerst hafi gær er Linduveðrið. Það var æsilegur stormur sem skall yfir 5. mars 1969. Þá var ég nemandi viðí Gagnfræðaskólann á Akureyri á Suðurbrekkunni, þar sem nú heitir Brekkuskóli.

Þó maður væri Eyrarpúki þá var alltaf gengið í skólann og venjulega farinn leiðin um Gilið eða Gilsbakkaveginn og niður í miðbæ og áfram. Þennan dag var einhver kvikmyndasýning á sal og ég sem hef alltaf lítið séð á bíó gleraugnalaus fékk leyfi til að sleppa síðasta tímanum. Úti var mjög sérkennilegt veður, Algjört stafalogn og nokkuð hlýtt. Umhverfið var einhvernvegin svo sérstakt að enn man ég hvað var undarlegt að koma út. Þetta var um hávetur og því var það munaður að fá slíka eðalblíðu og því valdi ég það sem maður gerði sjaldan eða aldrei, fór lengri leiðina heim til að njóta blíðunnar. Ég gekk niður Helgamagrastrætið og yfir klappirnar ofan íþróttavallarins, yfir hann og niður á Eyrina. Allan tímann var þetta undarlega stafalogn, það var eins og heimurinn væri frosinn í kyrrstöðu og þögnin var algjör. Gönguferðin tók kannski hálftíma og undir lokin fóru að svífa niður eitt og eitt snjókorn.

Ég gekk inn um dyrnar heima í Fróðasundinu og lokaði á eftir mér. Þá heyrði ég að eitthvað var að gerast úti og ég heyrði mjög undarlegt væl sem hækkaði og varð síðan að að ærandi hávaða. Þegar ég opnaði hurðina sem ég hafði lokað á eftir mér fyrir andartaki þá blasti við ærandi ofsarok, gríðarlegur skafrenningur og ofankoma. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð annan eins veðurham og blasti við. Ég skellti aftur hurðinni ofboði því allt ætlaði að fyllast af snjó. Í hálftíma lék húsið heima síðan á reiðiskjálfi og söng í hverjum glugga. Það voru helstu áhyggjur heimamanna að þeir héldu. Síðan fór að draga úr og eftir klukkutíma var veðrið dottið niður.

Oft hef ég hugsað til þeirra einskæru heppni að loka á eftir mér dyrum nokkrum sekúndum áður en fellibylurinn skall á en vera ekki staddur á klöppunum eða íþróttavellinum. En það voru margir sem ekki voru svo heppnir og lá við stórslysum um allan bæ. Það sem bjargaði að ekki var mannskaði var hversu stutt þetta ofsaveður stóð. En var þetta jafn hroðalegt og það er í minningunni ? Til að kanna kíkti ég í blöðin og hvað sögðu þau segðu um þennan atburð á þeim tíma. Var þetta eins voðalegt og minningin segir mér ?

Morgunblaðið sagði.

MILLJÓNATJÚN í FÁRVIÐRI Á AKUREYRI

VERSTA VEÐUR SEM KOMIÐ HEFUR ÞAR UM ÁRABIL

— Skólabörn lentu í hrakningum — 30 bílar skemmdust — þök tók af húsum, m.a. 900 ferm. þak á Lindu — rafmagnslaust síðd.

VERSTA veður, sem hér hefur komið árum saman, gekk yfir Akureyri um hádegisbil í dag. Vindur var af VSV,sennilega um 14 vindstig, en vegna rafmagnsbilana varð vindmælir óvirkur, svo að ekki er hægt að segja til umveðurhæð með nákvæmni.Skyggni var nákvæmlega ekki neitt og frost ört vaxandi. Stórskaðar urðu í veðri þessu á húsum og bílum og mun tjónið nema milljónum. Í morgun var hér bezta veður,sunnan gola, bjartviðri og um 5

stiga hiti og hélzt svo fram undir hádegi. Um klukkan 12 skall fárviðrið á, afar snögglega og mátti heita ófært hverjum manni fram yfir kl. 13, en þá tók óðum að draga úr veðrinu, þó að byljótt væri og vondar hryðjur fram eftir deginum. Nú í kvöld er veður orðið stillt og bjart, en komið 15-17 stiga frost.

HRAKNINGAR SKÓLABARNA

Börn voru nýfarin heim í mat úr barnaskólunum, þegar veðrið skall á og áttu þau mörg í miklum erfiðleikum að komast heim til sín og tókst það ekki nærri öllum, fyrr en versta veðrið var gengið yfir. Vitaskuld ríkti alger óvissa um afdrif þeirra á heimilunum og nokkur ótti greip umsig bæð heima fyrir og í skólunum.

Mjög víða í bænum urðu miklar skemmdir á þökum húsa. — Járnplötur þyrluðust bæinn eins og skæðadrífa og nokkur

þök tók af í heilu lagi. Verstar urðu þakskemmdir á verksmiðjuhúsi Lindu, en auk þess á nokkrum íbúðarhúsum, svo

sem Vanabyggð 6, Kringuumýri6, Lækjargötu 4 og Lyngholti í Glerárhverfi. Sum þökin lágu í nærliggjandi húsagörðum, en þar að auki höfðu önnur tvístrazt og valdið rúðubrotum í nágrenninu . Og stórtjón er víða orðið imni í íbúðum, bæði á húsunum sjálfum og húsgögnum,vegna glerbrota og braks, sem fokið hefur inn um gluggana.

Það var algeng sjón á Akureyri síðdegis í dag að sjá menn negla krossviðarplötur fyrir glugga og reyna að hemja lausar þakplötur á þær þakplötur, sem eftir eru ófarnar á mörgum húsunum.

Þakhæð súkkulaðiverksmiðjunnar Lindu fauk gjörsamlega af húsinu í einu vetfangi og sveif þakið, sem er 900 fermetrar, 100-200 metra austur fyrir húsið. Sumt skall niður á bersvæði, en annað lenti á sambýlishúsi, tvístraðist þar og olli miklum skemmdum á bílum, sem fyrir urðu. Þakið hvíldi á sverum stálbitum, sem haldið var uppi af stálstoðum,sem voru boltaðar niður í steinloft.Annar stálbitinn varð eftir skakkur og skældur, en hinn fauk með þakinu og kengbognaði eins og vírspotti, þegar niður kom.

Vísir segir frá .

Fólksbíll fauk niður I Glerárgil,um 20 metra fall og slapp bílstjórinn, Vignir Karlsson naumlega út, áður en bíllinn rann niður í gilið. — Brak fauk á bíla og skemmdi þá. Alls munu að minnsta kosti þrjátíu bílar hafa skemmzt í ofviðrinu. Nokkur slys urðu á mönnum.Steindór Steindórsson, skólameistari fótbrotnaði,er vindhviða feykti honum um koll skammt frá menntaskólanum. Nokkur bið varð á því að sjúkrabíll kæmist á staðinn. enda í mörgu að snúast og umferð erfið. Hópuðust nemendur í kringum skólameistara sinn og mynduðu þannig skjól fyrir hann meöan beðið var eftir sjúkrabílnum.

Þegar þetta er lesið þá má sjá að minningin um ofsann er rétt. Mér er til efs að nokkuð veður frá því Linduveðrið gekk yfir bæinn nálgist það að styrk. Einhverjar aðstæður hafa myndast sem hafa búið til aðstæður sem sendu versta veður í manna minnum yfir Akureyri og næsta nágrenni. Veðrið var hvergi neitt í líkingu við það sem við Akureyringar fengum að kynnast svo um munaði þennan marsdag 1969.

Það fljóta hér með þrjár myndir sem ég tók á gönguferð rétt eftir að veðrinu slotaði. Linda þaklaus, gamall Vauxhall hefur gefist upp í beygjunni, þakið og bitinn sem minnst er á í Moggagreinni örskammt frá fjölbýlishúsunum við Sólvelli og að lokum bjallan sem fauk af veginum við Sólborgarafleggjarann og niður undir Glerá eins og minnst er á í Vísisfréttinni.

Til gamans hér að lokum læt ég fljóta með vangaveltur af síðu Veðurstofnunnar þar sem Linduveðrið kemst á blað með frægustu óveðrum Íslandssögunnar.

Ekki er ótrúlegt að Veðurstofa Íslands muni á næstu árum huga að formlegum nafngiftum illviðra. Er þá spurning hvort sæmilegra sé að nota mannanöfn að amerísk- evrópskum hætti eða fara að dæmi austurlandabúa og nota önnur nafnorð. Íslensk illviðri hafa þó mjög mörg hlotið nöfn manna, skipa eða dagsetninga. Meðal dæma má nefna Ólafarbyl (hét lægðin þá Ólöf?), Halaveðrið, Hæringsveðrið, Linduveðrið, Fönixbyl, Ellen, Edduveðrið, Básendaveðrið, Flateyrarveðrið o.s.frv.

( Birtist áður á akureyri.net)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 818217

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband