Skógarkerfillinn í Hrísey.

Hrísey gróðurskoðun 2011-2599Hrísey er gjarnan kölluð perla Eyjafjarðar. Það eru orð að sönnu og fátt er betra en taka ferjuna á fallegum helgarmorgni og nóta dagvistar þar. Möguleikar til gönguferða eru margir og fjölbreytilegir, heimamenn hafa lagt sitt að mörkum með merkingum og skiltum og svo er það kyrrðin og friðurinn sem hægt er að finna nánast hvar sem er á svæðinu. Þarna er örugglega gott að búa.

Vá fyrir dyrum.

Fyrir nokkrum áratugum gróðursettu íbúar Ystabæjar lúpínu í land jarðarinnar og einnig norðan við vitann sem staðsettur er nyrst á háeyjunni. Lengi vel virtist þessi gróðursetning eiga í vök að verjast og ekkert gerðist. En svo var eins og yrði sprenging og lúpínan hóf mikla framrás til suðurs þannig að miklar breytingar sáust frá ári til árs. Jafnframt fór að bera á að skógarkerfill kæmi í kjölfar lúpínunar og ekki leið á löngu þar til tún Ystabæjar skrýddust hvítum kjól kerfilsins á hverju sumri. Einnig skaut hann rótum á háeyjunni við vitann og hóf mikla framrás til suðurs í kjölfar lúpínunnar. Fyrstu árin fanns fólki þetta hreinlega fallegt enda er blá breiða lúpínunnar og hreinleiki hvítra blóma kerfilins falleg þegar blómgun stendur sem hæst. Í þessum breiðum ber nokkuð á hvönn sem er annars eðlis og er ekki skaðvaldur í sama mæli og kerfillinn.

Brugðist við.

Umhverfisnefnd Akureyrar hófst síðan handa strax í upphafi síðasta kjörtímabils og blés til sóknar gegn þessari vá sem að lífríki Hríseyjar steðjaði. Á heimasíðu bæjarins stendur.

Markmið með gróðurkortlagningu var að fá yfirlit yfir gróðurfar í Hrísey árið 2007 með því að kortleggja gróðurfélög sem þar finnast og meta stærð þeirra. Sérstök áhersla var lögð á að kortleggja útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils og fá þannig skýra mynd af þróun og útbreiðslu þessara tegunda undanfarin ár en þær hafa breiðst hratt út í eyjunni á síðustu áratugum. Með sama áframhaldi má gera ráð fyrir að útbreiðsla þessara tegunda í Hrísey tvöfaldist á næstu árum. Því er nauðsynlegt að leita allra leiða til að hefta útbreiðsluna. Gerð var rannsókn á ástandinu og skrifuð skýrsla sem hér fylgir með ásamt gróðurkorti sem sýnir útbreiðsluna.

http://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/framkvdeild/NI-09011_vef-11.pdf

http://www.akureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/hrisey_utlit_lok_nov09_Rett_2.pdf

Í framhaldi af þessum rannsóknum var ákvæði um útrýmingu skógarkerfils og takmörkunar á útbreiðslu hvannar og lúpínu sett inn í Staðardagskrá fyrir Hrísey. Jafnframt varð þetta stærsta málið af hálfu Akureyrar í samnorrænu verkefni valinna sveitarfélaga á Norðulöndunum þar  Akureyri átti sæti ásamt Álftanesi. Ástandið í Hrísey vakti mikla athygli umhverfismanna úr þessum norrænu sveitarfélögum og þeim var eiginlega hálf brugðið þegar þeir heimsóttu eyjuna haustið 2009.

 

Líffræðilegur fjölbreytileiki

Skógarkerfill og lúpína

Lýsing:

Leitað verði leiða til að útrýma skógarkerfli úr eynni og takmarka hvönn og lúpínu. Einnig verði reynt að endurheimta náttúrulegan gróður á þeim svæðum sem skógarkerfillinn hefur lagt undir sig.

Svona hljóðar ákvæðið í Staðardagskránni. Það er mikið verk fyrir höndum í Hrísey. Ekki er hægt að beita hraðvirkum lausnum, t.d. nota eitur eins og verið er að gera t.d. í Eyjafjarðarsveit. Hrísey er vatnsverndarsvæði og þess vegna er það útlokuð leið. Ef til vill má afnema bann við beit sauðfjár og beita því að framlínu lúpínunnar, þá með að girða kindurnar af þannig að þær færu ekki að valsa um alla eyju með þeim afleiðingum sem því fylgja.

Útrýmir gróðri – hrekur fugl af varpsvæðum.

En af hverju er verið að berjast við þetta ástand ? Er ekki fallegt bara að hafa kerfilinn með sín fallegu hvítu blóm og heiðbláa lúpínuna í Hrísey. Eru móarnir ekki hvort sem er svo fátæklegir að þetta gerir bara gagn ? Svona má spyrja. Svörin eru skýr. Hinar hávöxnu plöntur lúpína og kerfill eyða öllum öðrum gróðri og ekkert af hinum náttúrlega íslenska gróðri fær þrifist í sambúð við þessar sterku plöntur. Þetta gerir síðan það að verkum að fuglalífið, stolt Hríseyjar hrekst af svæðum sem þessar plöntur leggja undir sig og þegar hefur æðarfugl og rjúpa horfið af svæðum sem þau áður urpu. Það lætur nærri að 15% eyjunnar séu nú undirlög þessum plöntum og fer hratt vaxandi. Framlína lúpínu sækir hratt fram, nokkra metra á ári auk þess sem hún skýtur sér upp hér og  þar í brúskum vegna foks fræanna eftir ísnum og hjarninu á vetrum. Þess vegna eru fleiri svæði sunnar á eyjunni að verða undirlögð þó þau séu ekki í beinum tengslum við svæðin í norðri.

Mikil barátta framundan og kostnaðarsöm.

Það má ekki láta deigan síga í Hrísey. Það slakaði nokkuð á fjárveitingum til þessa verks í hruninu og þegar mátti sjá að svæði sem búið var að slá og eyða af plöntum voru að koma inn aftur vegna skorts á eftirfylgni. Hér verða yfirvöld að halda vöku sinni því annars er hér í uppsiglingu eitt stærsta umhverfisslys á Íslandi seinni árin.

 

Birtist áður á Akureyri.net.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 818077

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband