Skynhelgi Sjálfstæðismanna.

„Er það í anda lýðræðisins að sækja um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ganga úr skugga um að þjóðin styðji þá umsókn?“ spyr Tímas Ingi Olrich, fv. alþm., í grein í Morgunblaðinu í dag.

_____________________

Sjálfstæðismenn hafa deilt og drottnað á Íslandi í áratugi.

  • Þeir spurðu engan að því þegar þeir einkavæddu bankakerfið,
  • Þeir spurðu engan þegar þeir seldu Símann.
  • Þeir spurðu engan þegar þeir settu Ísland á lista yfir hinar viljugu þjóðir.
  • Þeir spurðu engan þegar þeir afhentu Bandaríkjamönnum Keflavíkurflugvöll.

Svona mætti áfram telja og sá listi gæti orðið langur.

Satt að segja liggur við að manni verði örlítið flökurt að lesa svona skinhelgi eins og fram kemur í grein þessa fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, ráðherra sem sat þegar Davíð Oddsson ótvíræður einræðisherra landsins var við völd.

Meirihluti Alþingis ákvað að sækja um aðild að ESB.

Það er ekki hægt að greiða atkvæði um ekki neitt í þjóðaratkvæði. Að sækja um eða ekki er tilfinningamál sem ekki byggir á neinum staðfestum sannleika.

Þegar samningur liggur fyrir þá greiðir þjóðin atvæði um þann samning. Það er alvöru lýðræði.

Það sem Sjálfstæðismönnum gengur til er að reyna að koma í veg fyrir að þjóðin fái að sjá samning og geti tekið um það upplýsta ákvörðun hvort hún vill styðja þann samning eða ekki.

Það sem Tómas Ingi og aðrir Sjálfstæðismenn kalla lýðræði er í reynd tilraun til að koma í veg fyrir að þjóðin geti á eigin forsendum tekið ákvörðun út frá efnisatriðum málsins.

Það er lýðræði Sjálfstæðismanna.

Þess vegna verður mann aðeins óglatt.


mbl.is Lýðræðishalli ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sammála. Held að þeir hafi á síðasta valdaskeiði ekki spurt okkur um neitt!  Og svona greinar eins og hans Tómasar Inga eru náttúrulega brandari. 

Eins væri gaman að sjá þeirra leið einhverstaðar almennilega útfærða um hvernig þem dreymir t.d. um stöðugt og öruggt efnahagsumhverfi til framtíðar. Því nú hafa þeir ekki þann möguleika lengur að bankakerfið dæli hér inn lánsfé í áraraðir sem tekið er að láni í útlöndum, sem heldur hér uppi gervu hagsæld sem svo hrundi í andlitið á okkur og við áttum ekki fyrir.

Finnst lágmark að þjóðinn fái að sjá þennan samning sem unnið hefur verið að. Framtíðinna sem gæti verið í kjölfar hans og svo taka ákvörðun um hvort að það sé til betri leið. 

Magnús Helgi Björgvinsson, 7.2.2013 kl. 11:24

2 identicon

Þú svarar auðvitað engum af þeim spurningum sem varpað er fram.

Hér er því dæmigerð reyksprengja frá þér og röksemdafærsla sem leikskólabörnum væri vart sæmandi.

Þú og samfylkingarfélagar þínir hafið barist gegn öllum tilburðum um að koma þessu ESB aðildarferli í þjóðaratkvæðagreiðslu! Fyrrverandi formaður þinn, Jóhanna, sat heima í okkar merkilegustu þjóðaratkvæðagreiðslu allra tíma, það segir sitt um lýðræðisástina á þínu heimili.

Síðustu "þjóðaratkvæðagreiðslur" ykkar eru líka tómt djók, stjórnlagaráðs æfingin og nú síðast skoðanakönnun ykkar um stjórnarskránna... handvaldar spurningar - en slepptuð aðalspurningunni um framsal fullveldissins.

Þið standið nakin fyrir alþjóð og margbúið að afhjúpa ykkur.

"já en sjálfstæðisflokkurinn var nú ekkert betri" ....ertu ekki með kveikt á efri hæðinni? Fólk er svo gersamlega komið með nóg af þessum viðlíkingum ykkar. Enda er það orðið sport hjá fjölmiðlum að telja hversu oft orðið "sjálfstæðisflokkurinn" kemur fram í ykkar málflutningi. Þið getið varla opnað munninn eða drepið niður penna án þess tala um að einhver hafi nú gert miklu verri hluti en þið!

Njáll (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 11:27

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr Njáll! Tek undir þetta.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.2.2013 kl. 12:06

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Njáll... óttalega er þetta nú ódýrt hjá þér... nú eru þjóðaratvæðagreiðslur og niðurstaða þeirra ómerkilegt fyrirbæri...ástæða... þér líka ekki niðurstöðurnar.   Eimitt þetta er ég að skrifa um.

Jón Ingi Cæsarsson, 7.2.2013 kl. 13:28

5 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Algerlega sammála þér Jón Ingi. Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar Sjálfstæðismenn af öllum mönnum þykjast vera boðberar beins lýðræðis. Þeir sem einmitt hafa þjösnað í gegn Nato aðild og herstöðvarsamningi án þjóðaratkvæðis og stuðningsyfirlýsingu við innrás BNA í Írak án þess einu sinni að þingið væri spurt álits! Ár eftir ár sýndu allar skoðanakannanir að meirihluti Íslendinga var jákvæður gagnvart ESB aðild og seinna einnig gagnvart upptöku evru. En Davíð Oddsson endurtók bara eins og rispuð plata að aðild væri ekki á dagskrá. Þá stóð aldrei til að spyrja einn eða neinn. Alþingi samþykkti þessa umsókn og því fylgdi að af henni verður ekki nema þjóðin samþykki hana í þjóðaratkvæði. Þetta er raunverulegt lýðræði, ekki þjösnagangur Sjálfstæðisflokksins. Sama hvað þið gargið.

Njáll: Vettvangur lýðræðisins í Evrópu er þjóðþing, samfélag og fjölmiðlar aðildaríkjanna fyrst og fremst. Engu landi er hleypt inn í ESB nema að geta sannað að það virði grundvallarreglur lýðræðis og réttarríkis. Evrópuþingið er kjörið beinni kosningu og fær sífellt meiri völd. Engin alþjóðastofnun er nálægt því eins lýðræðisleg og ESB. Það sem þú segir um skoðanakönnunina um stjórnarskrá er þó því miður rétt. Það má taka undir með Gunnari Helga Kristinssyni sem kallaði hana misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sæmundur G. Halldórsson , 7.2.2013 kl. 13:45

6 Smámynd: Sandy

Jón Ingi, það hefði verið hægt að spyrja þjóðina hvort hún vildi yfir höfuð fara af stað með þessa umsókn, en Samfylkingin vissi sem var að það var ekki meirihlutavilji þjóðarinnar fyrir því og er ekki enn samkvæmt könnunum, þá fundu þeir upp þá snilldar setningu að fara af stað með umsókn og gá hvað væri í pokanum, þetta er það hlægilegasta sem ég heyrði vegna þess að þetta stendur allt í sáttmálum ESB og mátti lesa það þar. Sjálfstæðismenn hafa að mínu áliti verið hálfvolgir í sinni afstöðu en settu þó fram þá tillögu að setja þetta mál í þjóðaratkvæði, meira en maður heyrði frá þeim sem vilja telja sig vinstri-flokk(flokk hinna láglaunuðu).

Magnús Helgi, þegar ég var í barnaskóla var mér kennt að það væri ekki í lagi að vera með lágar einkunnir svo fremi að maður væri ekki lægstur. Í mínum huga er ekkert sem afsakar framgöngu þessarar ríkisstjórnar, alveg sama hvað fyrri ríkisstjórnir gerðu eða gerðu ekki. Þessi ríkisstjórn lofaði fólkinu í landinu að gæta að hagsmunum þess í þeirri vinnu sem óneitanlega þurfti að fara fram til að rétta landið af og koma hagkerfinu á lappirnar,sem þeir sviku svo strax á fyrsta mánuði í stjórn, og það þýðir ekkert fyrir neitt af þessu fólki að fela sig á bak við það hvað Davíð eða Halldór gerðu.

Sandy, 7.2.2013 kl. 14:10

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Sandy,,, þegar verið er að vinna með hagsmuni Íslands næstu áratugi þá þarf að skoða alla kosti, fá faglega og ígrundaða niðurstöðu og greiða um hana atkvæði. Ef þjóðin hafnar þeirri tillögu er málið dautt en sú höfnum byggir þá efnislegu mati á skýrum valkostum.

Að reyna að knýja fram niðurstöðu sem byggir á því að stinga máli ofan í skúffu án niðurstöðu er ábyrgðarleysi, óskynsamlegt og í reynd atlaga að framtíð Íslands.

Kannski eru menn svona rosalega ánægðir með núverandi stöðu gjaldmiðils, stöðu heimilanna, verðlagi matvæla, vaxtastig.. og svo framvegis. Ef svo er væri eðlilegt að ríghalda í núverandi stöðu lands og þjóðar...

Er það málið... ?? eruð þið svona rosalega ánægð með þá stöðu ?

Jón Ingi Cæsarsson, 7.2.2013 kl. 14:21

8 Smámynd: Pétur Harðarson

Æi hvað það er sorglegt að sjá menn í pissukeppni um hverjir hafa misnotað hugmyndina um opið lýðræði mest. Auðvitað þykjast vinstri menn vera með vinningin vegna orðaflaumsins sem sem kemur á tyllidögum eða þegar Samfó heldur landsfund.

En það er sorglega týpískt að þegar einhver skrifar eitthvað um lýðræði ESB þá er farið að skoða hvaðan orðin koma í staðinn fyrir að athuga hvort einhverjar staðreyndir liggja að baki.

Við vitum t.d. að ESB hefur einfaldlega sagt nei við þjóðaratkvæðagreiðslu sem Írar héldu á sínum tíma og þá eru nokkrir meðlimir í stjórn ESB ekki lýðræðislega kjörnir. Þetta ætti að vekja upp spurningar hjá okkur.

Svo ættu menn að athuga hvernig Jóhanna náði fram "meirihluta" á þingi þegar ESB málið var tekið fyrir. Þar voru ekki beinlínis lýðræðisleg vinnubrögð á ferðinni heldur var troðið á núgildandi stjórnarskrá til að ná sínu fram.

Svo má ekki gleyma lyginni um að hér sé vetið við eitthvert samningaborð. Fyrst var logið að okkur að þetta væru bara samningaviðræður sem ættu að taka ca. 18 mánuði. Nú eru liðin 4 ár, ekki er byrjað að snerta á fiskveiðinum en hér hafa sprottið upp apparöt eins og fjölmiðlanefnd sem eru bein afsprengi ESB. Fólk sem heldur að einhvers staðar sitji menn sveittir við semja um hag Íslendinga innan ESB eru ákaflega blindir verð ég að segja.

Pétur Harðarson, 7.2.2013 kl. 15:04

9 Smámynd: Sæmundur G. Halldórsson

Pétur: ef aðildarríki fellir einhverja tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu (Danmörk eða Írland t.d.) er komið til móts við það land með einhverju móti. Danir felldu Maastricht-sáttmálann 1992 og í Edinborg ´93 (á næsta toppfundi) fengu þeir fjórar undantekningar (frá evrunni, dómsmálum, utanríkismálum o.fl.) sem gilda enn. Síðan var kosið aftur í DK og nýr samningur gekk í gildi með varanlegum undantekningum fyrir Danmörku. Sama hefur verið á Írlandi. Ef kosið er aftur er verið að kjósa um breyttan texta. Menn gaspra út í loftið um lýðræðishalla ESB án þess að nokkur reyni að sýna fram á dæmi þess. Evrópuþingið er kosið beinni kosningu og ræður núna miklu eða mestu í flestum málaflokkum. Endanleg ákvörðun er ekki tekin fyrr en Ráðherraráðið (með fagráðherrum hvers ríkis) eða Leiðtogaráðið (þar sitja þjóðhöfðingja aðildarríkja) hefur samþykkt málið. Allir sem þar sitja eru þjóðkjörnir. Í framkvæmdastjórninni sem leggur fram tillögur að lögum sitja embættismenn, teknókratar. Þeir eru skipaðir en ekki kosnir, en þeir verða að mæta fyrir Evrópuþingið sem getur hafnað þeim. Það hefur gerst nokkrum sinnum og öll framkvæmdastjórnin hefur þurft að víkja vegna vantrausts í þinginu. Svo það sem þú segir er beinlínis rangt. Hvaða embættismenn á Íslandi eru kosnir eða þurfa að standa kjósendum reikningsskil (aðrir en forsetinn) ?

Sæmundur G. Halldórsson , 7.2.2013 kl. 22:28

10 identicon

Jón Ingi, þið hafið farið svo marga hringi með ykkar málefni og málflutning að það er ekkert í dag sem frá ykkur kemur sem heldur vatni.

Þegar þú talar um að " fá faglega og ígrundaða niðurstöðu og greiða um hana atkvæði " þá eruð þið nú þegar búin að sýna fram á að þið virðið slík vinnubrögð að engu.

Vinnulag ykkar við stjórnarskránna sýnir okkur það glöggt.

Ef ég sundurliða það fyrir þig þá var þetta :

1: Þjóðaratkvæðagreiðsla (Skoðanakönnun) sem þið hélduð nýverið, en voruð óbundin af. Sem þýðir að þið hafnið henni ef niðurstöðurnar þóknast ykkur ekki, en hampið henni annars.

2: Þið slepptuð því sem þið tölduð óheppilegt fyrir ykkur í, en trönuð öðru fram sem þið tölduð ykkur hagnast á í skoðanakönnuninni. Sbr. því að sleppa hinni augljósu spurningu um framsalið til ESB.

3: Stjórnlagaráðið var dæmt ólöglegt, þið gáfuð frat í dómstólana og þar með réttindi fólks og settuð málið bara í nefnd með sama fólki og var ólöglega kosið.

4: Hunsið ráðleggingar og athugasemdir fagmanna og hagsmunaaðila. Mig rámar nú í orðalagið "Lögfræðilegur gæðastimpill" ... en leyfðuð lögfræðingunum þó ekki að gera efnislega úttekt á tillögunum.

5: Gefið umsagnaraðilum allt of naumann tíma til að leggja fram umsögn

6: Kallið til Feneyjarnefndina, gefið henni 10 daga þegar hún tekur sér venjulega marga mánuði til sinna verka.... og afgreiðið svo málið úr nefnd áður en hún nær að leggja fram sínar athugasemdir.

...og margt margt fleira.

Svo má auðvitað nefna samráðsnefndina sem komið var á um sjávarútvegsmál þar sem söguleg niðurstaða fékkst milli allra hagsmunaaðila og fagmanna. ...þið hentuð því út um gluggann og vinnið nú að því að sprengja sjávarútveginn í tætlur með áróðri, álögum, regluverki og almennri þjóðnýtingu. Enda virðist ofstækinu ætlað að draga tennurnar úr sjávarútvegnum. Ætli það sé ekki vegna mikillar andstöðu við ESB innan sjávarútvegsins...

Já, það er ekki lítið sem þið eruð til í að fórna fyrir ykkar tæknikrata himnaríki.

ESB í skiptum fyrir lýðræði, sjálfstæði og lífsgæði.

Njáll (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 818139

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband