27.7.2007 | 21:30
Akureyrarvöllur æsku minnar.
Í margsnúinni umræðu um framtíð Akureyrarvallar settist ég niður og brá mér til fortíðar. Þessi greinarstúfur birtist í Vikudegi í gær. Svona er mér innanbrjósts í þessari umræðu allri. Það er kannski með þetta mál eins og svo mörg önnur, allt var svo stórt og gott í gamla daga en því miður stendur tíminn ekki kyrr... sama hvað við rembumst og reynum. Hér kemur hugleiðingin.
__________________
Ég er Eyrarpúki. Það er einn fínasti titill sem við sem ólumst upp á Eyrinni getum hugsað okkur. Eyrin var ótrúlega fjölmenn í þá daga, í það minnsta fannst okkur það sem þar lifðum og hrærðumst. Ég var svo heppinn að fyrir algjöra tilvíljun lenti ég á Suður-Eyrinni sem var enn fínna að okkar mati sem þar bjuggu. Hvað sem öðru leið, börnin á Eyrinni voru hamingjusöm í þá daga, samt var ekkert sjónvarp og Lög unga fólksins voru einu sinni í viku, í 45 mínútur.
Leiksvæðin okkar voru allstaðar. Fjaran og þvottaplanið við Strandgötu var óborganlegt leiksvæði, flötin fyrir sunnan Stefni var vettvangur ýmiskonar leikja og uppátækja. Eiðsvöllurinn var draumaland þar sem oft var fjölmennt sérstaklega þegar fór að skyggja á haustin. Svo voru það bara garðarnir og göturnar sem voru okkar leiksvæði, að vísu við litla hrifningu þeirra sem snemma fóru að sofa. Fátt var skemmtilegra en stökkva um garða og girðingar í "treinak í hringnum".
En eitt var það svæði þar sem flestir Eyrarpúkar eyddu tíma sínum langdvölum, hvort sem var að vori, hausti, sumri eða vetri. Það var íþróttasvæðið við Glerárgötu sem þá var að vísu einbreið moldargata með ryki í þurrki og drullupollum í vætu. Á vorin, sumrin og haustin leið varla sá dagur að ekki var farið á Moldarvöllinn til að sparka bolta. Þar voru samankomnir tugir barna og unglinga sem skiptu í lið og spiluðu klukkustundum saman. Meira að segja einn og einn stútungskarl læddist í hópinn og fékk að vera með. Það var allt í lagi að leyfa þeim gömlu að sprikla með ef þá langaði.
Eitt var þó eins og er enn í dag. Grasvöllurinn var vaktaður af ströngum gæslumönnum sem ráku stubbana harðri hendi af mjúku grasinu freistuðust þeir til að stelast inn á. En það var bara partur af leiknum að reyna þegar ekki sást til þeirra. Svo voru það frjálsar. Krakkarnir fengu að spreyta sig á stökkum, köstum og hlaupum á frjálsíþróttanámskeiðum sem stundum voru. Og svo keppti ÍBA um helgar með öllum sínum stórstjörnum, hetjum okkar strákanna. Lilli-Kobbi, Skúli Ágústar, Kári Árna og Einar Helga, Steingrímur..og margir margir fleiri. Þá mættu 1000 manns á völlinn til að horfa á leiki.
Svo kom veturinn og þá eiginlega fækkaði ekkert á íþróttavallarsvæðinu. Brekkurnar vestan við völlinn voru sleðasvæði Eyrarpúkanna og reyndar krakkanna af Norðurbrekkunni líka. Tugir barna voru í brekkunum daglega þegar gaf. Menn renndu sér tugi ferða niður brekkur og öttu kappi á heimagerðum magasleðum og sumir áttu meira að segja fína Stiga sleða frá útlöndum. Paufast var upp að Brekkugötu og brunað langt út á völl þegar best gaf. Á moldarvellinum var oftar en ekki fínt skautasvell þar sem hundruð barna og unglinga renndu sér á skautum og sýndu listir sínar. Upplýst með kösturum undir dynjandi tónlist var svæðið hárómatískt og þarna hittu margir sína fyrstu kærustu, sumir eiguðust maka fyrir lífstíð eftir rómantíska kvöldstund á svellinu á Moldarvellinum.
Ég gæti skrifað heila bók um líf og upplifun Eyrarpúkanna á Akureyrarvelli. Það bíður betri tíma. En er Akureyrarvöllur enn sá sami Akureyrarvöllur sem fyllir mig angurværð og rómatík þess sem er að eldast ? Hann er aðeins minningin ein. Mér rennur til rifja að horfa á völlinn minn, auðan, dimman og tóman 8 mánuði á ári. Hann er meira að segja læstur svo bæjarbúar geta ekki einu sinni stytt sér leið þó svo þá langi til. Moldarvöllurinn er auður og tómur og búið er að girða fyrir sleðabrekkurnar. Skautasvellið er innanhúss langt í burtu og tónlistin og rómatíkin er horfin. Við blasir aðeins myrkrið eitt. Á sumrin lifnar aðeins yfir vellinum og smá stund kviknar aðeins líf sem minnir á hina gömlu daga. Völlurinn er fallega grænn og 100 áhorfendur skemmta sér konunglega meðan á leiknum stendur. Það er gott. Glerárgatan er komin að hlaupabrautinni sem var lagt inn á velli í æsku minni. En sívaxandi umferð kallaði á breikkun gömlu moldargötunnar minnar og nú hamlar hún stærð hans til austurs. Þjónustan við bílinn gengur fyrir.
Ég sakna gamla vallarins míns og mannlífsins þar. Þetta voru góðir dagar og ég veit að þarna leið mér vel. Ég veit líka að þetta er minningin ein og gömlu dagarnir koma aldrei aftur, til þess hefur allt of margt breyst.
Um bloggið
Jón Ingi Cæsarsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- agny
- malacai
- megadora
- gumson
- skagstrendingur
- agustolafur
- bjarnimax
- bleikaeldingin
- bookiceland
- gattin
- bibb
- dofri
- ragnagrondal
- fsfi
- saltogpipar
- gisliivars
- gretar-petur
- lucas
- mosi
- gudrunkatrin
- nelson
- coke
- hehau
- hemba
- helgivilberg
- hildajana
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlynurh
- slubbert
- minos
- hordurj
- ingolfurasgeirjohannesson
- jakobk
- leicester
- rabelai
- jonhalldor
- joninaros
- jonerr
- jonsnae
- thjodarskutan
- kafteinninn
- ktomm
- kjarri
- kjarrip
- ksk
- kristjanmoller
- larahanna
- lara
- lillagud
- magnusmar
- olafurjonsson
- skari60
- pallijoh
- ljosmyndarinn
- fjardarheidi
- safi
- siggisig
- stebbifr
- svavaralfred
- svenni
- saemi7
- saevarh
- sollikalli
- valdisa
- vestfirdir
- tbs
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 818826
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 21
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.