Starinn - nýbúi á Akureyri.

Með hlýnandi loftslagi hafa orðið ýmsar breytingar á náttúrunni á Íslandi. Hér á Akureyri höfum við ekki farið varhluta af þeim breytingum. Gróðurfar og gróska er með allt öðrum og betri hætti en hún var þegar ég var að alast upp. Skógar voru næstum engir í Eyjafirði, fuglalífið var fábreyttara og öðru vísi, tegundir sem voru algengar þá eru sjaldséðar í dag en fjöldi annarra hefur numið hér land. Á þessu mun ekki verða nokkuð lát og við verðum að taka af jafnaðargeði og með skynsemi. Ég gæti talið upp fuglategundir sem voru algengar í æsku minni við innanverðan Eyjafjörð og eru fáséðar í dag. Einnig gæti ég talið upp fjölda tegunda sem eru að bætast við bæði á sjó og landi en ætla að fjalla hér stuttlega um einn okkar nýjasta landnema, starann.

Starinn fór fyrst að verpa á Íslandi um 1940 austur á Hornafirði en í Reykjavík fóru starar að verpa upp úr 1960. Talið er að fjöldi starahjóna sem verpir í Reykjavík á vorin sé 500-1000, en fjöldinn getur hlaupið mikið, til frá ári til árs. Varptíminn hér á landi er snemma vors eða nánar tiltekið í apríl eða fyrri hluta maí. Starinn verpir 4-7 eggjum sem eru blágræn á litinn.

Tengist hlýnandi loftslagi
Á Norðurlandi hefur starinn verið að birtast á allra síðustu ár og tengist sú breyting vafalaust hlýnandi loftslagi og hagstæðara veðurfari. Þó eru til sögur af stara frá því fyrir og um 1940 þegar talið er að hann hafi farið að verpa á Suðausturlandi. Í Náttúrufræðingnum frá 1936 er eftirfarandi saga frá Siglufirði sem segir okkur að stari hefur líklega haldið sig á Sigló síðla árs 1935 og 1936. Eimitt á þeim tíma fer veður mjög hlýnandi á Íslandi eins og við erum að upplifa undanfarin ár.

Núna á Þorláksmessu kom í hóp snjótittlinganna nokkru stærri fugl,alsvartur, með ljósgult nef, beint, hnarreistur og hvatlegur, —sköpulagið er líkt og skógarþrastarins, en hann er lítið eitt stærri, á stærð við lóuþræl. Stélið er nokkuð langt og sýlt í það. Hann er fremur gæfur, en amar burtu snjótittlingunum. Fuglinn var hér daglega yfir jólin, en fór svo og kom fyrst aftur í dag (12. jan.). Hefir hann haldið sig hér í allan dag og notað sér óspart af því framreidda.

Ég býst við að fugl þessi sé stari, en eg hefi ekki fuglafræði, svo að eg sé viss um þetta, og hefði því gaman af að fá að vita um það, hver hann er. ( Jón Jóhannesson. Náttúrfræðingurinn 1936.)

Árið 1944 er Náttúrufræðingurinn farinn að fylgjast reglulega með landnámi þessa skemmtilega fugls. Eftirfarandi birtist í 3. – 4. tölublaði það ár:

Stari — Sturnus vulgaris vulgaris
1942: Á Lambavatni á Rauðasandi var stari um tíma í jan. (Ólafur Sveinsson). Á Djúpavogi héldu til um 20 starar í des., og dvöldu þeir þar þar til í marz 1943 (Sigurður Björnsson). Að Kvískerjum í Öræfum kom stari 17. jan. og aftur 17. marz. 1. apríl sáust þar 3 starar, og á tímabilinu frá 22. okt. til 11. nóv. sáust þar öðru hvoru 1—5 starar (Hálfdán Björnsson). í Neskaupstað í Norðfirði dvöldu 3 starar 9.—11. febrúar. Segir heimildarmaður minn (Björn Björnsson), að þeir hafi etið hafragrjón með snjótittlingum, þar sem þeim hafi verið gefið.

1943: Um haustið settist stari á íslenzkan togara á Halamiðum, en hann drapst fyrstu nóttina, sem hann var um borð (Einar T. Guðbjartsson). Á Djúpavogi sáust nokkrir starar 20. okt., og dvöldu þeir þar, að minnsta kosti öðru hvoru, fram yfir miðjan des. (Sigurður Björnsson). Að Kvískerjum í Öræfum kom stari 17. apríl, en hann hvarf nærri strax. 18. okt. kom þangað enn stari, og daginn eftir sáust þar 2 starar. 24. okt. komu þangað um 70—80 starar, en þeir hurfu nærri allir þann sama dag. Þó sáust þar 2 starar 30. okt., 4 starar 2. nóv., 5 starar 5. nóv. og 8 starar 9. nóv. (Hálfdán Björnsson). Til viðbótar því, sem skýrt var frá um starana í Höfn í Hornafirði í Fuglanýjungum II 1944. Þar segir: „Stararnir eru hér enn eins og undanfarin ár og álíka margir. Veit nú með vissu um 3 varpstaði. I Ægissíðuhólma nota þeir alltaf sama hreiðrið. Þeim virðist vegna vel, og aldrei verður vart dauðra fugla.”

Stari

 

Starinn á Akureyri
Undanfarin ár hefur starinn verið að birtast á Akureyri og nærsveitum. Fyrsta hreiðrið og parið sem ég varð var við var á Eyrinni. Það hafði gert sér hreiður og komið upp ungum í húsi við Ránargötu. Það var sumarið 2008. Síðan hefur fuglinum fjölgað nokkuð og sumarið 2011 tók ég þátt í að rýna fuglinn á Akureyri. Niðurstaðan var að í bænum voru 18 hreiður og úr flestum þeirra komust upp ungar. Hreiðurstaðir voru hefðbundnir, starinn leitar sér að holum og glufum í byggingum, náttúrlegir varpstaðir hans eru sennilega holur í trjám og klettum þar sem náttúran ein er til staðar. Eitt staðarvalið er þó sérstakt á Akureyri, í ljósastaurum inni í kúplinum þó aftan við glerið.

Erum við fordómafull?
Eins og er algengt á Íslandi verður maður var við nokkra fordóma í garð þessa líflega og skemmtilega fugls. Á staranum er fló sem sýgur blóð úr honum. Þessi fló lifir líka á mörgum öðrum fuglategundum. Það er sagan um flóna sem nær þar mestu flugi og eins og gjarnan vill verða er sú umræða nokkuð ýkt og úr lagi færð. Flóin er í hreiðrunum en heldur sig þar þangað til fuglinn hefur yfirgefið hreiðrið og þá kemur fyrir að hún kemst í tæri við mannfólkið. Auðvitað er líka nokkur sóðaskapur af fuglinum því fugl á hreiðri skilur eftir sig úrgang eins og gefur að skilja.

Hvað er til ráða?
Þeir sem vilja ekki fá stara í hús sín geta byrgt göt og glufur sem fuglinn sækir í. Ef fuglinn nær að verpa og koma upp ungum er ráðlagt að bíða þar til unginn er farinn úr hreiðri, fá þá meindýraeyði til að eitra fyrir flónni og loka síðan glufunni.

Mér hafa borist til eyrna sögur að meindýraeyðar séu að drepa unga í hreiðrum með eitri. Ég vil trúa því að þær sögur séu rangar því allir sem það starf stunda vita að starinn er alfriðaður fugl og lögbrot að drepa fuglinn og unga hans. Auðvitað gætu þeir orðið fyrir þrýstingi frá húseigendum vegna hræðslu þeirra við flóna, en lítil sem engin hætta er á að flóin fari á flakk meðan ungar eru í hreiðri. Hún heldur sig þar sem fæðan er og flakkið hefst ekki fyrr en nokkru eftir unginn er farinn úr hreiðrinu.

Starinn er nýbúi á Akureyri, það eru líka svartþröstur, gráþröstur, glókollur og fleiri. Ég vona sannarlega að ekki séu að myndast fordómar í garð einstakra tegunda sem hér eru að birtast síðustu árin. Fordómar byggja oft á þekkingarleysi. Nýjum fuglategundum á vafalaust eftir að fjölga hér næstu ár og áratugi ef þróun veðurfars verður með svipuðum hætti og verði hefur undafarin ár. Akureyringar eru vonandi það jákvæðir og lausir við fordóma að þeir fari ekki að velja góða og vonda nýbúann þegar kemur að fuglategundum sem hingað koma með hlýnandi tíðarfari. Þessi þróun stöðvast ekki meðan veðurfar heldur áfram að þróast eins og verið hefur.

Besta ráðið er að rýna í húsið sitt og sjá fyrir hvar stari gæti séð sér út hreiðurstæði. Þá verður ekkert vandamál til.

Jón Ingi Cæsarsson
Fulltrúi í umhverfisnefnd Akureyrar.

 

Pistill sem birtist í Akureyri vikublaði þann 6. júní 2013.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Það væri gaman ef fugla og skordýrafræðingar legðu eitthvað til málana um Starralúsina. Fróður maður sagði mér að allar fuglategundir hefðu  sína sérstöku lúsategund !? 

Snorri Hansson, 9.6.2013 kl. 04:38

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi lús á fuglum þá fylgir hún fleirum fuglategundum en stara. Vestmannayingar þekkja vel lundalúsina og eru ekki að fjasa mikið um það. Lús er meira og minna á öllum fuglum en er sennilega meira áberandi hjá starra vegna þess hve hann lifir nálægt okkur, velur sér hreiður í þakrennum, lofttúðum og öðrum opum þar sem skilyrði til hreiðurgerðar teljast góð.

Nú ber að gæta þess að starrinn nýtur friðunar og því ekki heimilt að ráðast að hreiðri hans með látum meðan ungar hafa ekki yfirgefið hreiður. Jafnskjótt og það gerist er auðvitað öllum heimilt að hreinsa til og sótthreinsa. Nauðsynlegt er að byrgja þessi hreiðurstæði t.d. með vírneti eða öðru til að koma í veg fyrir að starrinn leiti aftur að hafa hreiður á sama stað þar sem það telst ekki æskilegt.

Mín viska um þessi mál eru fengin frá www.fuglavernd.is

Auk þess hefi eg verið áhugamaður um fugla lengi. Mjög gaman er að fylgjast með fuglum, þeir koma og fara. Eg minnist þess þegar eg flutti í Mosfellsbæinn eða öllu heldur Mosfellssveitina fyrir meira en 30 árum, þá tóku á móti okkur þúsundir snjótittlinga. Nú eru þeir sjaldséðir en starrar, skógarþrestir, svartþrestir, auðnutittlingar og jafnvel gráþrestir og silkitoppur koma í garðinn þar sem þau njóta matgjafa yfir veturinn.

Góðar stundir! 

Guðjón Sigþór Jensson, 9.6.2013 kl. 16:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 818122

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband