Glerárdalur - útivistarperla við þéttbýli.

Í þessum pistli ætla ég að fjalla lítilega um Glerárdal sjálfan og sérstaklega þá möguleika sem þessi tiltölulega ósnortni dalur gefur okkar Akureyringum. Dalurinn var mjög lengi helsti afréttur Akureyrar og beit var þar töluverð. Hún hefur nú dregist saman og nú er svo komið að þar ganga aðeins fáeinar kindur frístundabænda. Þess sér strax merki í gróðurfarinu og svæði sem voru orðin heldur fátækleg eftir áratuga eða árhundraða beit eru nú óðum að gróa upp, berjaland er að taka við sér og flög sem voru nokkuð áberandi víða eru greinilega í endurnýjan lífdaga.

Glerárdalur og umhverfi, því ekki má gleyma að ekki er verið að tala um dalinn einan og sér þegar talað er um svæðið heldur er líka inni í þeirri mynd allir tindar, fjallsranar, Súlumýrar sem eru afar lítið skemmdar og svo uppland Akureyrar þar sem áður voru sorphaugar bæjarins og efnistökunámur.

Hvað segir í opinberum gögnum um Glerárdal ?

„Hæst eru fjöllin umhverfis Glerárdal, sem er suður af Akureyri, en einnig eru há fjöll á milli Hörgárdals og Skíðadals svo og á milli Barkárdals og Hjaltadals. Í töflunni hér á eftir eru tekin saman hæstu fjöll Tröllaskagans. Þessi fjöll og önnur lægri eru skemmtileg áskorun fyrir útivistarmenn enda útsýni víða stórkostlegt.“

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu yfir 15 hæstu fjöll á Tröllaskaga eiga 8 þeirra heimilsfestu við Glerárdal sem segir okkur að Glerárdalur hefur alla burði til að vera helsta útivistarperla þeirra sem unna fjallamennsku og fjallgöngum.

Heiti Metrar yfir sjó Aðliggjandi dalir
Kerling1536Finnastaðadalur/Glerárdalur
Tröllafjall syðst1483Glerárdalur/Bægisárdalur
Kista1474Glerárdalur/Hörgárdalur
Strýta1456Glerárdalur/Hörgárdalur
Tröllafjall nyrst1454Glerárdalur/Bægisárdalur
Kambshnjúkur1450Glerárdalur/Hörgárdalur
Dýjafjallshnjúkur1445Ytri-Tungudalur/Klængshólsdalur
Kvarnárdalshnjúkur1430Illagilsdalur/Klængshólsdalur
Tröllahyrna1425Glerárdalur/Bægisárdalur
Jökulborg1421Þverárdalur/Bægisárdalur
Stóristallur1420Skjóldalur/Finnastaðadalur
Kistufjall1407Þverárdalur/Glerárdalur
(Hólamannahnjúkur)1406Barkárdalur/Kolbeinsdalur
Heiðingi1402Hafrárdalur/Heiðinnamannadalur
Jökulfjall1402Barkárdalur/Hjaltadalur
   

Til viðbótar má síðan nefna heimafjöllin okkar Akureyringa, Ytri og Syðri Súlur sem eru rétt um 1.200 metra há og þangað ganga hundruðir manna á hverju ári.

Dalurinn og fjöllin.

Tröllaskaginn er fjallgarður að mestu hlaðinn upp úr samlægum basaltlögum, sem hallar inn til landsins , en inn á milli eru líparítlög og líparrítseggjar þar inn á milli. Í dalbotnum, skálum og hvilftum eru víða smájöklar og hjarnfannir sem þó hafa látið mikið á sjá síðustu áratugi. Basalthellan hefur síðan sprungið þvers og kruss og. Jöklar og vatn hafa síðan sorfið þessar sprungur í þá dali sem við þekkjum í dag. Flestar meginsprungurnar erum með N-S stefnu en aðrar hafa suðvestlæga stefnu, þar með talinn Glerárdalur.

Á ísöld voru dalir fullir af jökuís og má nærri geta að jökullinn mótaði landslag og útlit þessar dala. Jökullinn í Glerárdal hörfaði síðan á einhverjum tímapunkti, en fyrir stóð hinn gríðarlegi Eyjafjarðarjökull þannig að fyrir framan jökulsporð Glerárjökulsins myndaðist stórt og djúpt uppistöðulón og Gleráin sem þá hefur verið skaðræðis jökulá rann norður með með hinum þykka og stóra Eyjafjarðarjökli og til sjávar miklu norðar en nú er. Sjá má merki um farvegi Glerár til norðurs, t.d. á Langamel sem liggur til NA ofan við Giljahverfi og svo við Krossanesbæinn þar sem áin hefur líklega lengi runnið fram. Sjá má merki um farvegi frá Glerárdal enn norðar. Jökulónið við sporð Glerárjökulsins hvar síðan þegar Eyjafjarðarjökullinn hörfaði enn meira, og eftir sátu mikir efnishaugar á botni þessa fyrrum lóns og það það efni sem hefur orðið til þess að allur neðri hluti dalsins varð efnistöku að bráð um og eftir miðja síðustu öld. Það er fróðlegt að rýna í rof á efnistökusvæðunum og rýna í sand og malarlögin sem einu sinni féllu til botns í jökulóninu mikla. Ofar eru síðan mikir jökulgarðar og víða má sjá svelgrásir í brekkum dalsins og má ein þeirra er stór og mikil og margir þekkja rétt neðan Fálkafells, skátaskálans í útjaðri Súlumýra. Þar rann vatn í gríðarlegu magni við jökuljaðarinn og þær sýna okkur vel hvað jökullinn var þykkur. Fleiri svona rásir má sjá í Súlutindi ef að er gáð og menn lesa landslagið.

Glerárdalur er um 16 kílómetra langur. Hæðin í mynni dalsins er um 230 metar og hann hækkar jafnt og þétt og hæðin á dalbotninum innst er um 700 metrar yfir sjávarmáli.

Þegar horfið er niður til dalins sjálfs og gengið upp að vestan þá eru þar mjög víða skjólsælar lautir, berjaland og lækir skoppa á steinum. Smáfossar falla fram af brúnum og mjög mikið er af ýmiskonar blómplöntum sem eru mjög til yndisauka. Lítið er um stíga þarna megin í dalnum og úr því þarf að bæta til að auka enn á útivistargildi dalsins. Ég ætla ekki að telja upp alla þá tinda og alla þá möguleika sem hægt er að njóta vestanmegin en þó er ekki hjá því komist að minnast á Tröllafjallið sem er að mínu mati það áhugverðasta af fjöllum við dalinn ef frá er talinn Kerling og hennar nánasta umhverfi. Tröllafjallið dregur nafn sitt af miklum steindröngum, um 40 metra háum sem eru í örmjórri egg sem gengur austur úr fjallinu. Þar fyrir neðan er síðan Tröllaspegill, sérkennileg tjörn í hólunum. Leiðir austan megin í dalnum eru þekktari enda er þar stikaður göngustígur inn í Lamba, lítinn skála Ferðafélags Akureyrar sem reistur var þar 1975. Kerlingin og Lambárdalur – Lambárdalsöxl með steingerfingum sínum er svo annað merkissvæði sem ótrúlega fáir þekkja.

Það var ekki meiningin að hafa uppi mikla landlýsingu á Glerárdal og umhverfi í þessum pistli enda er það efni í heila bók. Tilgangurinn er fyrst og fremst til að minna okkur á hvað við höfum í höndunum og hvað við eigum gríðarlega möguleika í framtíðinni hvað varðar útivist og ferðamennsku.

Framtíðaráform.

Fyrir 8 árum skilaði starfshópur á vegum Náttúrverndarnefndar skýrslu um Glerárdal. Þar var lýst þeirri skoðun að Glerádal skyldi varðveita og skipuleggja sem útivistarsvæði Akureyrar og þar yrði ákvarðaður formlegur fólkvangur samkvæmt reglum um slíkt. Síðan lá þessi vinna nokkuð í láginni en 2009 var skipaður hópur sem ætlað var að hefja vinnu við framkvæmd þessarar stefnu. Hrunið varð til þess að þessi vinna fór ekki af stað en þó lét umhverfisnefnd vinna gróðurkort fyrir dalinn. Sú vinna er í höfn og fer inn í þá vinnu sem framundan er . Nýverið skipaði síðan núverandi umhverfisnefnd fulltrúa í starfshóp sem á að ljúka við að landa þessari vinnu í samræmi við stefnumörkunina frá 2004.

Það var jafnframt upplegg þessa hóps að ekki skyldi eingöngu horfa til dalsins og fjallanna umhverfis hann heldur líka það sem kallað var uppland Akureyrar og er þar átt við Glerárgilin, Súlumýrar og svæðin umhverfis. Það er mikið gæfuspor að taka þau svæði með í þessa vinnu enda eru þau óaðskiljalegur hluti Glerárdals. Súlumýrar eru nokkuð ósnortnar en mikið starf er óunnið á svæðunum neðan þeirra þar sem efnistaka og sorpurðun hafa leikið landið grátt. Sem betur fer eru soprhaugarnir farnir og unnið er að lagfæringum þar og 2008-2010 var unnið mikið uppgræðslu og endurheimtustarf neðan þáverandi hauga þar sem sár eftir efnistöku og sorpurðun voru lagfærð.

Samvinna.

Það er afar mikilvægt að þegar vinna hefst við deiliskipulagningu dalsins að hafa samráð og samvinnu við þá sem best þekkja til á þessu svæði. Þar er Ferðafélag Akureyrar fremst í flokki af mörgum en það félag hefur áratugum saman haft Glerárdal í öndvegi sinna ferða og staðarþekking þeirra er einstök. Fleiri slík félög eru starfandi og það verður fyrsta verk nefndarinnar að ramma inn og hafa samband við alla þá sem hagmuna eiga að gæta, útivistarfólk, ferðamálasamtök, vélsleðamenn og fleiri. Norðurorka á síðan mikilla hagsmuna að gæta enda eru Glerárlindir, mikilvægar vatnsbirgðir Akureyringa á svæðinu miðju, og þar þarf að gæta ítrustu varkárni.

Það er mér mikið gleðiefni að loksins hilli undir að framtíðarskipulag þessa svæðis verði fest með formlegum hætti. Margar ógnir steðja að enda eru verðmæti misjafnlega metin eftir því hverjir eiga í hlut. Ég trúi því að við séum hætt að ásælast verðmæti dalsins með þeim hætti sem gert var í áratugi en í þess stað metum við andleg og útvistargildi til öndvegis í þessar dýrðlegu perlu bæjarins okkar. Ég ætla að enda þetta á setningu úr „ Lýsing Eyjafjarðar“ eftir Steindór Steindórsson. „ Enginn bær á landinu á meiri gimstein að tröllslegri náttúru, víðaáttumiklu útsýni, fjallatign og heimkynni vetraríþrótta.“

Þetta var skrifað ár árunum fyrir 1949 eða meira 60 árum síðan. Þá þegar höfðu framsýnir menn komið auga á þetta þó svo áratugir hafi síðan þurft að líða að við áttuðum okkur til fulls á þessari augljósu staðreynd.

( Birtist áður á akureyri.net )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 818825

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband