Hin síbreytilega Akureyri, annar hluti.

Hamborg um 1910Miðbær Akureyrar var í Innbænum, þar var apótekið, verslanir, pósthús og fleira það sem prýða þarf miðbæi kaupstaða. Um aldamótin 1900 orðið mjög þröngt um frekari uppbyggingu á því svæði og því fóru bæjarbúar að horfa annað og eftir auknu landrými. Það var horft til svæðisins við Barðsnefið þar sem Leikhúsið okkar stendur en þar var þröngt og sjórinn kreppti að.

Þá fóru bæjarbúar að renna hýru auga til Torfunefsins en þar hafði Grófargilslækurinn skapað nokkuð undirlendi niður af gilinu. Fyrsta íbúarhús sem þar reis var íbúðarhús Dúa Benediktssonar lögreglumanns og stóð það þar sem Kea reisti síðar höfðuðstöðvar sínar og kallað var Hafnarstræti 91.Fljótlega reis nokkur fjöldi timburhúsa undir brekkurótunum og alveg norður að Brekkugötu. Einnig risu hús austan við Hafnarstræti eins og land leyfði. Þegar norðar dró lá sjórinn alveg að götunni og þar sem nú er Ráðhústorg og ekki pláss til að reisa hús austan megin. Víkin þar út af gekk undir því fagra nafni Sóðavík og þó heldur ókræskilegur og daunillur pollur enda áttu straumar ekki greiða leið inn í krikann á mótum Oddeyrar og miðbæjarsvæðisins. Það var því farið í að fylla út í sjóinn á því svæði fljótlega upp úr því að húsaröðin að austan hafði verið byggð eins og land leyfði. Þar risu nokkur hús og þar má t.d. nefna það sem í dag er kallað Braunsverslun og er númer 106 við Hafnarstræti.  Það hét áður Sæborg og var flutt til Akureyrar frá Hrísey. Öll húsin frá Hafnarstræti 100 að 108 standa á þessari fyrstu uppfyllingu á miðbæjarsvæðinu.

Miklar uppfyllingar.Nú líða nokkuð mörg ár, þá er hafist handa við enn frekari landvinninga við miðbæinn. Árið 1924 var Bjarna Einarssyni timburmeistara falið að gera rúmlega 100 metra uppfyllingarkant austur af húsunum sem þegar höfðu risið á eldri uppfyllingunni austan Hafnarstrætis.  Verk Bjarna gekk afar hægt og árið 1927 var fengið til bæjarins stórvirkt dæluskip, Uffe í eigu Dansk Sandpumpekopagni til að dæla upp og gera nýtt land með uppfyllingu Sóðavíkurinnar. Þegar þessu verki lauk í júní 1928 náði þessi uppfylling að Strandgötu 7 þar sem nú er Kaffi Akureyri.Þessi uppfylling og þeir viðlegukantar sem gerðir voru mótuðu síðan ásýnd Akureyrar frá 1928 til 1970 þegar enn frekari uppfyllingar í stórum stíl bættust við. Í millitíðinni hafði bátalægið við Strandgötu verið fyllt upp en það var þar sem nú stendur Menningarhúsið Hof.Á þessari uppfyllingu frá 1927-8 risu síðan margar byggingar og götur voru lagðar. Ráðhústorgið, Skipagatan og svæðið sem nú er Hofsbót eru á þessari uppfyllingu, öll húsin við Skipagötu, Nýja bíó, sem reis strax árið eftir. Öll húsaröðin sem setur hvað sterkastan svip á Akureyri, þ.e. húsaröðin frá Ráðuhústorgi 1 að Skipagötu 8 og austanmegin, Skipagata 1 – 9 standa á þessari sömu uppfyllingu, auk Hofsbótar 4.  Niður við hafnarkantin voru síðan Kornvöruhús Kea, ýmsar skemmur og hús Eimskipafélagins. Það má því segja að meiri hluti þess miðbæjarkjarna sem við þekkjum í dag stendur á uppfyllingunum frá 1910-1928.  Allt svæði er því manngert og þarna standa fá hús á náttúrlegu landi, aðeins húsin næst Kaupvangstorgi og röðin meðfram brekkunni, þ.e. húsin með oddatölunúmerum við Hafnarstrætið.

Hvað er eftir af elsta Miðbænum ?Því miður er ekki mikið eftir af fyrstu húsum á núverandi miðbæjarsvæði. Þar muna elstu menn enn eftirJerúsalem, Edinborg, Rotterdam, Hamborg, París og fleirum. Sú skemmtilega hefð hafði skapast að kalla hús á þessu svæði eftir erlendum borgum. Það er aðeins að gleymast og er leitt. Stórhýsin Jerúsalem og Rotterdam eru horfin en hin sem ég nefni standa enn bænum til sóma. Það er ekki eitt einasta af upprunalegum húsum vestan Hafnarstrætis á þessu svæði sem stendur enn. Hús Dúa vék fyrir stórhýsi Kea fyrir 1930, glæsihúsið Hafnarstræti 107 var flutt í Ránargötu fyrir 1940  þegar það þurfti að víkja fyrir Sýslumannshúsinu. Öll timburhúsaröðin milli þessar tveggja húsa hvarf hægt og bítandi þar til það síðasta varð vinnuvélum að bráð á níunda áratugnum. Þarna er nú háhýsaröð mikil þar sem steypa og gler hafa verið sett í öndvegi. Hluti Amaróhússins á þó uppruna í gömlu húsi eftir því sem ég best veit.Austan Hafnarstrætis á þessu svæði eru þó fleiri eftir, Hamborg, París, Hótel Akureyri sem loksins er farið að gera upp auk áðurnefnds húss við Hafnarstræti 106 sem nú er kallað Braunshús. Glæsihúsin Akureyrarapótek og Hafnarstræti eru steinhús frá því um 1930 og eru upprunaleg á þeim lóðum. Strandgata 1, Hótel Oddeyri var rifið og Landsbankinn reis á grunni þess. Öll pakkhúsin og öll timburhúsin við sunnanverða Skipagötuna austanmegin eru horfin og þar eru nú bílastæði.Sá miðbær og sú miðbæjarásýnd sem við þekkjum í dag er ekki gömul. Þessi ásýnd mótaðist í framhaldi af þeim breytingum sem voru síðan næstar í röðinni, því þó að hér sé sagt frá nokkru er uppfyllinga og landvinningasögu Miðbæjarins ekki lokið. Á því varð síðan framhald á sjöunda og áttunda áratugnum.Af þessari sögu mætti ráða að öll uppbygging á þessu svæði sé eitt samhangandi umhverfisslys þegar notuð er þrengsta túlkun þess orðs en þannig er það auðvitað ekki, þetta er hluti af sögu Akureyrar sem mótast af aðstæðum og þörf hverju sinni.

( Heimildar eru m.a. sóttar í Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason, hin ýmsu bindi. )

Birtist áður á Akureyri.net


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mjög gott yfirlit um sögu Agureyrar!

Guðjón Sigþór Jensson, 20.2.2012 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 818128

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband