Fyrirlestur um umhverfismál

Septemberdagur-3908Erindi sem ég flutti 2007 og fjallaði um umhverfismál á Akureyri og almennt séð rifjaðist upp. Þar er drepið á ýmislegt sem gekk eftir og annað sem ekki náði fram að ganga af ýmsum ástæðum. Set hann hérna svo pistillinn sé aðgengilegur og á vísum stað og margt í honum er í fullu gildi þó liðin séu fimm ár.

Ágætu tilheyrendur.

 

 Líffræðilegur fjölbreytileiki – ábyrgð sveitarfélaga er stórt viðfangsefni fyrir 10 mínútna fyrirlestur.  Ég mun þvi reyna að skauta yfir málið eins og mér er unnt en þó reyna að koma því til skila sem við er átt.

 

Sveitarfélög á Íslandi eru á annað hundrað og hefur fækkað mikið undanfarin ár. Vandamál það sem sveitarfélög eiga við að glíma þessi árin eru hið mikla tómlæti sem þessi málaflokkur hefur búið við áratugum saman. Gengið hefur verið gegn náttúru og umhverfi bæja og þorpa af miklu skilningsleysi enda var þessi umræða ekki uppi á borðum á síðustu öld. Það er ekki fyrr en á síðari hluta aldarinnar sem menn fóru á alvöru að velta fyrir sér umhverfismálum af einhverju viti.

 Auðvitað var  það ekkert annað en gengdarlaus rányrkja sem stunduð var og með aukna þéttbýli og mannfjölda urðu sárin stærri og afleiðingarnar meiri. Skolp rann óhreinsað niður fjörur, efnistaka var gegndarlaus og gróðurlendi hvarf undir hús og götur. Margt af þessu var auðvitað óhjákvæmilegur fylgifiskur þéttbýlis en flest sem mestu tjóni olli var fyrst og fremst vegna hugsunar og þekkingarleysis. Umræða um umhverfismál fór fyrst aukast á sveitarstjórnarstigi eftir 1980 og náði sér loks á strik með Staðardagskrár 21 verkefninu, í það minnsta í stærri sveitarfélögum 

Á Akureyri hafa umhverfismál verið í deiglunni lengi en því miður hafa athafnir oft ekki fylgt orðum að hluta til vegna fjárskorts og af öðrum toga vegna tómlætis og forgangsröðunar. Það stefndi í algjört óefni í ýmsum þeim þáttum sem snúa að líffræðilegum fjölbreytileika og umhverfismálum almennt. Þéttbýlið var farið að setja alvarleg  merki á umhverfi okkar sveitarfélags. Sorpið var einn að þeim þáttum og síðustu áratugi hefur það verið að valda stjórkostlegu tjóni á umhverfi Akureyrar. Annað stórt mál var óhreinsað skolp sem rann í Pollinn og fjörðinn og var farið að hafa mikil áhrif á lífríkið. Tegundir voru horfnar og td kræklingur sem var algengur á fjörum við innanverðan Eyjafjörð var horfinn innan við Krossanes sem er tvo til þrjá kílómetra norður með firðinum.

 

Það var svo á níunda áratugi síðustu aldar að Akureyringar sáu að við þetta varð ekki unað og þá hófst vakning sú sem hefur verið að vaxa seinni árin.

 

Fyrstu stóru ákvarðanirnar sem teknar voru var áætlun um hreinsun skolps í fjörðinn og áætlun um stórfellda skógrækt umhverfis og í bænum. Þá fyrst fara stjórmálamenn að takast á við afleiðingar tómlætis og hugsunarleysis á markvissan hátt. Lokaáfangi hreinsunar sjávar er að hefjast og á næstu mánuðum hefst bygging hreinsistöðvar í Sandgerðisbót..Þó höfðu frumherjarnir hafist handa fyrr td með því að ákveða uppbyggingu útivistar og skógrækarsvæðis í Kjarnalandi. Flestir þekkja árangur þess sem í Kjarnaskóg hafa komið. Þar njóta tugir þúsunda útvistar á ári hverju.

 

Síðastliðin ár hafa Akureyringar verið að bregðast við því tjóni sem þéttbýlismyndun hafði valdið. Sorpmálin voru lengi bitbein og illa gekk að ná samkomulagi. Akureyrarbær ákvað því að ganga úr Sorpeyðingu Eyjafjarðar til að ná tökum á þessum málum því illa hafði gengið að ná samstöðu með öðrum sveitarfélögum í firðinum um þessi mál. Þessi ákvörðun hafið þær afleiðingar að á næsta ári hefst jarðgerð og flokkun sorps samkvæmt nýjustu aðferðum og stefnir í að loks eftir áratuga óstand komist þessi mál í góðan farveg. Árið 2010 verðum við vonandi farin að jarðgera 10.000 tonn af lífrænum úrgangi á ári. Sem betur fer létu önnur sveitarfélög á svæðinu segjast og koma að þessu með okkur af fullri einurð. Það var umdeild ákvörðun að slíta þessu byggðasamlagi en nú sjá menn að Akureyri axlaði með því abyrgð sem mun skila okkur gæfu í framtiðinni. Skaðinn verður stöðvaður og nú hafa menn hafist handa við að vinna til baka eins mikið og hægt era f tjóni áratuganna.

Af öðrum málum sem Akureyri er að takast á við af festu er að vinna gegn miklum afleiðingum skefjalausrar efnistöku á Glerárdal. Mynni dalsins var eitt rjúkandi svöðusár eftir efnistöku síðustu áratuga. Nú standa mál þannig að uppbygging og uppgræðsla er að hefjast beggja megin ár. Fyrir liggur að friðlýsa dalinn og gera að fólkvangi á formlegan hátt. Við höfum ráðist gegn útbreiðslu skógarkerfils og lúpínu í Hrísey og víðar. Þar ógnaði framrás þessara plantna lífræðilegum fjölbreytileika í eyjunni og hafði breiðan þegar lagt undir sig 13 % af eyjunni og skildi eftir sig að mestu lífvana svæði að öðru leiti. Ekki dugði að sitja og horfa í gaupnir sér meðan slysið átti sér stað. Aðgerðir hófust á þessu ári og lofa góðu. Þetta mál er lýsandi dæmi um atburð sem var að eiga sér stað fyrir allra augum en enginn gerði sér grein fyrir hvað var að gerast. Nú höfum við tekið stóra ákvörðun sem vonandi mun nýtast öðrum sveitarfélögum í baráttu við aðfluta vágesti. Við höfum tekið frá svæði og friðlýst í Krossanesborgum sem er stór sigur. Það er land sem mætti byggja á og því er það ábyrg afstaða að ákveða að stofna þar til fólkvangs og friða svæðið um aldur og ævi. Þar eiga börn framtíðarinnar greiðan aðgang að nátturu og fegurð innan sveitarfélagsins við þéttbýlið. Þetta var ekki óumdeild ákvörðun og margir urðu til að deila á það sem menn kölluðu litla skynsemi, eyða dýrmætu landi undir það eitt að passa upp á mýraflóa og illgresi. En þessar raddir hafa þagnað og ég finn mikla ánægju með þessa ákvörðun. Akureyringar eiga hlutdeild í verndarsvæði í óshólmum Eyjafjarðarár ásamt Eyjafjarðarsveit og þar er samstaða um að verja og vernda það svæði fyrir frekari ágangi. 

Við stefnum að því að gera Glerárdal að mestu leiti að fólkvangi þar sem bæjarbúar og gestir eiga greiðan aðgang að útivist og náttúru auk þess sem gætt verður sérstaklega að því að vernda dalinn eins og hann er og leyfa að byggjast þar upp líffræðilegum fjölbreytileika á hreinan íslenskan máta. Akureyri hefur nú hafið þátttöku í samnorrænu verkefni á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um endurheimt líffærðilegs fjölbreytileika. Við vorum valin til þátttöku ásamt Álftanesi. Við völdum okkur þrjú verkefni og ætlum að ljúka þeim á árinu 2010. Það eru áðurnefnd verkefni á Glerárdal og í Hrísey auk þess ætlum við að endurheimta Hundatjörn sem eitt sinn var dýpsta og stærsta tjörn á Akureyri og er í útivistarsvæðinu í Naustaborgum. Þar var skurðum lokað í fyrrahaust og í sumar. Á því svæði verður einnig unnið að því að koma þremur stórum raflínum í jörð.

 Ábyrgð sveitarfélaga er því fyrst og fremst að vera meðvituð um nauðsyn verndurnar og varðstöðu um líffræðilegan fjölbreytileika. Rányrkju áratuganna verður að linna og ég hef góða von um að skilningur á því sé að vaxa. Það er skylda okkar sem nú lifum og störfum að vinna til baka þau slys og afleiðingar hugsunarleysis áratugana og tómlæti má ekki viðgangast. Sveitarstjórnamenn hafa miklar skyldur gagnvart framtíðinni: Það þarf að vinna til baka afleiðingar rányrkjunnar og hugsunarleysis aldanna. Það er mikið verk og kostnaðarsamt. Sem betur fer hafa ýmsar tilskipanir lagt okkur skyldur á herðar sem ef til vill flýta því að tekist verður á við vandamálin. Tómlæti og aðgerðaleysi á ekki að vera í boði og að mínu mati er mikil þörf vakningar meðal sveitarstjórnarmanna í þessum málaflokki.  Við sem störfum í þessum geira á sveitarstjórnarstigi finnum að það er tilhneyging til að skera fjárveitingar við nögl þegar kemur að þessum málum. Það er að hluta til angi af enn stærra vandamáli sem er allt of knappt fé til reksturs sveitarfélaga.

Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er þekkt umræðuefni og skortur á fé til reksturs hjá okkur sveitarstjórnarmönnum bitnar gjarnan á málflokknum umhverfismál. Skólar, félagsmál og önnur slík fá gjarnan forgang eins og eðlilegt er og því má segja að málaflokkurinn umhverfismál líði meira en margir aðrir fyrir allt of rýr framlög ríkis til sveitarfélaganna. Umhverfismálin eru því ef til vill fórnarlamb fjárskorts á sveitarstjórnarstigi fremur en mörg önnur. Vandamálið er hinnsvegar smæð margra sveitarfélaga. Akureyri og sambærileg sveitarfélög eru vel stödd og eiga góða möguleika á að vinna að slíkri stefnumörkun og framkvæmdum. Litlu sveitarfélögin eru hinsvegar illa í stakk búin til að fast við ýmar afleiðingar þéttbýlis. Þau skortir fé til að takast á við stóru málin, fráveitu og sorp. Einnig vantar þau hugmyndafræðilegan bakgrunn sem auðveldara er að ná í stóru sveitarfélögunum. Sameining sveitarfélaga er nauðsyn, litlu hrepparnir munu ekki hafa bolmagn til að sinna þessum málum eins og þarf. Það ætti því að vera hluti af ábyrgð þeirra sem starfa á sveitarstjórnarstigi að sameina enn frekar er orðið er.    

Ríksvaldið er því ekki undanþegið ábyrgð í þessum málaflokki. Staðardagskrá 21 og starf Stefáns Gíslasonar var því geysilega mikilvægt innlegg í þessa baráttu og hjálpaði mörgum af stað sem annars hefðu ekki ráðið við slíkt. Því miður virðist sem ríkisvaldið sé að missa áhugan á þessu máli og mér skilst að fjárframlög til þessa málaflokks hafi verið skorin verulega niður.  Það eru slæm skilaboð ríkisvaldins til sveitarfélagana sem svo sannarlega eru tilbúin hugarfarslega til átaka í þessu gríðarlega mikilvægu málum. Mér finst að ríkið eigi að ganga undan með góðu fordæmi og girða sig í brók. Þaðan verður leiðarljósið og hvatningin að koma. Það er áhætta að framkvæmd umhverfismála á Íslandi sé undir persónulegum áhuga sveitarstjórnamanna komið hverju sinni. Þessum málum verður að stjórna og hafa uppi aðhald og eftirlit.  

Ábyrðin er sameiginleg hjá ríki og sveitarfélögum.  Ef við ætlum að ná tökum á umhverfismálum og koma þeim í ásættanlegan farveg þarf aukið fé, skilning og kynningu. Það þykir sjálfsagt að reka sjúkahús, skóla og félagsþjónustu. Umhverfið er hluti af lífi hvers manns og þess vegna er það skylda okkar að rækt þess og það þyki jafn sjálfsagt mál og rækta við aðrar grunnstoðir samfélagins. Á það skortir nokkuð enn sem komið er.

 

Takk fyrir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 818122

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband