Þá var ég orðinn hræddur.

 

 Set hér inn gamla grein sem ég skrifaði á vef Samfylkingarinnar fyrir rúmlega ári síðan. Þessa grein skrifaði ég 22 september 2008 og hún birtist á vef flokksins 29. sama mánaðar. Þarna var orðið stutt í hrunið...en samt fékk ég bágt fyrir þetta hjá sumum ónefndum.

29. september 2008 09:03
Einkavæðingardraumurinn úti -- Jón Ingi Cæsarsson


Undanfarin fimmtán ár hefur umræðan um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og stofnana verið áberandi. Fjöldi fyrirtækja og stofnana sem voru í eigu þjóðarinnar hefur verið einkavæddur og mörg þeirra með sanni verið einkavinavædd. Þar ber fyrst að nefna ríkisbankana sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skiptu með sér og færðu góðvinum sínum á útsöluprís.
 
Þá ber að minnast Símans en eins og kunnugt er var ríkisstofnuninni Pósti og síma skipt upp í tvö fyrirtæki, Póstinn og Símann. Frá því það var gert er búið að selja Símann og skipta honum upp í nokkur fyrirtæki. Með einkvæðingu grunnnetsins hvarf þessi gríðarlega auðlind þjóðarinnar endanlega úr umsjá þjóðarinnar og nú getum við ekkert annað en vonað að þeir sem það eignuðust klúðri ekki málum. Gjaldþrot grunnnetsins mundi kalla á yfirtöku ríkisins á ný yfir þessari gríðarverðmætu auðlind sem illu heilli var einkvædd og færð vandalausum.
 
Bankagjaldþrot?

Síðustu mánuði hafa verið blikur á lofti. Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar fara ekki framhjá nokkrum manni og nú velta menn því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort geti komið til þess að einhver bankanna fari aftur í ríkiseigu. Óneitanlega blasir við að eigendur bankanna hafa farið afar óvarlega í fjárfestingar og fyrir okkur leikmenn virðist margt af því sem þar hefur verið að gerast verið hrein spákaupmennska. Landsbankinn virðist í mesti hættu staddur og á því fyrirtæki standa tugir milljarða í töpuðum fjárfestingum. Hvaða fyrirtæki þolir slíkt til lengdar og hversu oft ? Eigum við ef til vill eftir að sjá Landsbankann í ríkiseigu á ný ? Hver veit.

Einkavæðingarsturlun?

Í þeim hremmingum sem nú ganga yfir sjáum við og heyrum einkavæðingarsinna halda áfram söngnum. Þótt við blasi gjaldþrot þeirrar stefnu að færa eigur þjóðarinnar til fjármálamanna fyrir smáaura þá má heyra suma af frjálshyggupostulunum halda áfram sama söngnum. Næsta fyrirtæki í eigu þjóðarinnar er komið á marklista þeirra og nú ágirnast samkeppnisaðilar Íslandspósts starfsemi þess fyrirtækis. Íslandspóstur var gerður að hlutafélagi fyrir tíu árum og hefur verið rekið sem hlutafélag í samkeppni. Á þann hátt töldu stjórnmálamenn starfsemi fyrirtækisins best borgið, það hefði svigrúm til að afla sér tekna sem tryggðu þjónustu um land allt á sem mestum jafnréttisgrundvelli á skynsamlegu verði. Nú kalla samkeppnisaðilar þessa fyrirtækis eftir því að fyrirtækinu verði bannað að vera í samkeppni og því þar með gert ókleift að standa undir þjónustu við alla landsmenn, auk þess sem ríkissjóður yrði af hundruðum milljóna í arðgreiðslur sem runnið hafa til samfélagsins. Slíkt væri afar óskynsamlegt og leiddi til þess eins að póstinn yrði að setja á fjárlög og láta hann um að þjónusta óarðbær svæði fyrir greiðslur úr ríkissjóði. Tapið væri þjóðarinnar.

Einokun einkaaðila
 
Ríkiseinokun er slæmt orð og eitur í beinum margra. En hvað höfum við uppskorið við einkavæðingu ríkisfyrirtækjanna? Í stað ríkiseinokunar höfum við fengið fákeppniseinokun þar sem verð og gæði þjónustu hefur farið á verri veg. Hver er afrakstur einstaklinga og fjölskyldna af einkavæðingu bankanna, eða símans? Spyrjum okkur þeirra spurninga. Niðurstaðan blasir við öllum. Dýrari þjónusta og hætta á að fyrirtækin einkavæddu verði gjaldþrota vegna óskynsamlegs reksturs fákeppnikónganna. Auðvitað langar samkeppnisaðilana í rekstur Íslandspósts. Þó sennilega bara þann hluta sem þeir gætu grætt á en vildu gjarnan skilja eftir þjónustuna sem veitt er alls staðar burtséð frá tekjum. Niðurstaðan: Verri þjónusta þegar til heildar er litið og örugglega hærra verð.

Það er ábyrgðarhluti þegar alþingismenn kalla eftir aukinni fákeppni og vilja færa þjónustu fyrirtækja í eigu þjóðarinnar í hendur fákeppnifursta. Það sem verra er að þeir sömu alþingismenn hafa engan áhuga á að kynna sér starfsemi fyrirtækisins eða gera sér nokkra grein fyrir hvaða afleiðingar það hefur að einkavæða þónustustofnanir þjóðarinnar. Slíkir menn eru hættulegir þjóðarhag.
 
Einkvæðingarstefnan er gjaldþrota. Víða um heim eru ríkisstjórnir að bjarga bönkum og fyrirtækjum sem hafa spilað rassinn úr buxunum. Hér á landi eru samt nokkrir alþingismenn svo bíræfnir að þeir kalla enn á einkavæðingu og vilja bjóða þjóðinni upp á fákeppni einkaaðila. Ég held að við ættum að doka við og líta yfir farinn veg. Höfum við gengið til góðs? Hefur einkavæðingin í íslensku þjóðfélagi skilað okkur betra verði, betri þjónustu og aukinni samkeppni? Svarið er einfalt. Nei. Í stað fyrirtækja í eigu þjóðarinnar, ríkisins, höfum við eignast fákeppnifyrirtæki þar sem þjónusta og verð eru fráleitt betri en þegar þau voru rekin á vegum þjóðarinnar. Það væri í góðu lagi að einkavæða ef það leiddi til betri niðurstöðu en þeirrar sem fyrir var. Því miður hefur það mistekist hrapalega og græðgi nýrra eigenda hefur skemmt hugmyndafræðina að baki þess að einkavæða. Kannski sjáum við undir iljar margra þeirra núna þegar kreppir að og þjóðin verður að yfirtaka þessar gömlu eignir og koma þeim í skikk.


Jón Ingi er dreifingarstjóri hjá Íslandspósti á Akureyri, varabæjarfulltrúi og formaður Samfylkingarfélagsins í bænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Víðir Benediktsson

Á meðan þú varst að skrifa þetta var flokksbróðir þinn og þáverandi viðskiptaráðherra að skrifa þetta.

"5. ágúst 2008

Þegar KB banki opnaði útibú í Lúxemborg fyrir nokkrum árum óraði líklega engan fyrir því hve vel íslensku fjármálafyrirtækjunum ætti eftir að ganga við að hasla sér völl á erlendri grundu. Ævintýralega vel er kannski rétta orðið yfir það.

Kjarkur, þor og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu. Ekki síst þegar lagt er saman við aðra útrás Íslendinga erlendis í verslun, iðnaði og þjónustu ýmiskonar.

Auðvitað skortir ekki úrtölur eða þá sem telja sig knúna til að tala útrás og fjárfestingarævintýri Íslendinga erlendis niður. Þannig eru nú hlutirnir einu sinni og því er það mikilvægt nú þegar hægir tímabundið á útrásinni vegna þrenginga á erlendum mörkuðum að halda frábærum árangri þessara flaggskipa atvinnulífsins okkar ríkulega til haga. Þetta eru okkar voldugustu fyrirtæki og nokkrar af helstu undirstöðum efnahagskerfis okkar til lengri tíma.

Í árslok 2006 má ætla að hlutdeild fjármálafyrirtækja hafi numið um 10% af landsframleiðslu og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu um 60 milljörðum. Í fyrra komu 52% af tekjum viðskiptabankanna erlendis frá og þótt erlendar tekjur vátryggingafélaga séu enn ekki svipur hjá sjón miðað við viðskiptabankanna stefnir þróunin þar í sömu átt. Þessar staðreyndir sýna svo ekki verður um villst að útrás fjármálageirans hefur orðið afgerandi þýðingu í okkar efnahagslífi.

Íslensku bankarnir hafa sums staðar sætt nokkurri gagnrýni undanfarið erlendis. Sérstaklega fyrir að vera ekki nógu burðugir og um of háðir skammtímafjármögnun. Um forsendur gagnrýninnar sem skapaðist vorið 2006 hefur verið fjallað um rækilega, meðal annars af Fredirik Mishkin og Tryggva Þór Herbertssyni. Niðurstaðan er sú að gagnrýnin var að verulegu leiti tilhæfulaus. Hinsvegar var ljóst að bankarnir þyrftu að fjármagna sig betur og til lengri tíma og að koma þyrfti betur á framfæri upplýsingum um rekstur þeirra.

Samskonar gagnrýni skýtur upp kollinum á nú í kjölfar þeirrar lausafjárkreppu sem kennd er við undirmálslán. Hún er þó ekki einskorðuð við íslenska banka, þar sem vandinn er alþjóðlegur.

Athygli vekur þó að háværasta gagnrýnin kemur frá samkeppnisaðilum bankanna á erlendum vettvangi. Löngum hafa sérfræðingar Danske bank haft horni síðu íslensku bankanna en fyrir skemmstu bættust Finnskir bankamenn í “grátkórinn”.

Aðstoðarmenn Nordea í Finnlandi, Markku Pohojla, gefur til dæmis opinberlega í skyn að íslensku bankarnir munu fljótlega lenda í miklum vandræðum. Hann gengur jafnvel svo langt að gera því skóna að íslensku bankarnir verði ekki til staðar eftir nokkra mánuði. Þessi stóru orð finnska bankamannsins byggja ekki á neinni greiningu á íslensku bönkunum. Nýleg ítarleg úttekt á stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins alls, eftir þá Friðrik Má Baldursson og Richard Portes, gefur til að mynda ástæðu til að ætla að staðan tiltölulega góð í alþjóðlegu tilliti.

Gagnrýnin hlýtur því að skoðast í því samhengi að a.m.k. tveir íslenskir bankar, Glitnir og Kaupþing, hafa hafi sókn inn á markað fyrir sparifé í Finnlandi, með svipuðum hætti og Landsbankinn hefur áður gert í Bretlandi. Þessi markaðssókn kemur sér vitanlega illa fyrir Nordea sem til þessa hefur ekki treyst sér til að bjóða jafn góð kjör og íslensku bankarnir bjóða.

Ásakanir þessar eru alvarlegar þar sem þær beinast einnig að íslenskum eftirlitsaðilum, sérstaklega Fjármálaeftirlitinu en einnig að hluta Seðlabankanum. Ítarleg greining þessara tveggja lykilstofnanna gefa ekkert annað til kynna en að íslensku bankakerfið sé mjög stöndugt.

Í ofanálag eru innlán Finna í íslenskum bönkum tryggð með innistæðutryggingum. Að því leiti til sem finnskar reglur þar að lútandi veita betri réttindi en íslenkar myndu bankar bæta tjón sparifjáreigenda ef svo ólíklega vildi til að einhverjir bankar kæmust í lausafjárskort.

Því er rétt að halda því til haga sem rétt er þegar reynt er að kasta rýrð á fjármálastofnanir okkar þegar kreppir að.

Til að fara yfir stöðuna og til að efla samvinnu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja um fjárfestingar erlendis mun Viðskiptaráðuneytið kalla til fundar með Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráðs í janúar. Ætlunin er að skapa varanlegan vettvang fyrir slíkt samstarf og verður janúarfundurinn fyrsta skrefið í þá átt.”

Víðir Benediktsson, 27.10.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband