Orð í tíma töluð.

Glöggt er gests augað.  Claus Møller, stofnandi Time Manager International sér ástandið á Íslandi með augum þess er hefur yfirsýn yfir rykið og óróann. Hann segir þetta og kemur hér fram í þessri frétt

" Það slær mig hins vegar í allri fjölmiðlaumfjölluninni um krísuna að fyrst og fremst virðist vera einblínt á vandamálin og hið neikvæða í stað þess að leita lausna. Þið þurfið sárlega á því að halda sem þjóð að þið getið þjappið ykkur saman til þess að vinna í sameiningu að lausn vandans. Raunar má líkja aðstæðum hér við stríðsástand, en þegar maður er í stríði er hins vegar nauðsynlegt að vita hver er óvinur manns. Mér virðist núna eins og að stríðið standi milli almennings og ríkisstjórnarinnar, sem er mjög bagalegt þar sem það mun aðeins leiða til meiri sundrungar hjá þjóðinni. Meðan öll orkan fer í að ræða hvort flýta eigi kosningum og stjórnarandstaðan eygir möguleika þess að komast að kjötkötlunum þá er verið að sóa tímanum þar sem ekki er byrjað á nauðsynlegri uppbyggingu,“ segir Møller og tekur fram að raunar sé forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti "

Ég held satt að segja að æ fleiri sjái nauðsyn þess að þjappa sér saman og takast á við vandamálin. Það þjónar engum tilgangi að rífast og skammast alla daga... kalla á kosningar sem lausn vandans, kalla á aftökur án dóms og laga án þess að sannleikurinn liggi fyrir. Allt þetta tefur fyrir bráðnauðsynlegum aðgerðum og vinnu við að koma sér út úr versta brimskaflinum. Það er svolítið grátlegt að hafa horft upp á það undanfarnar vikur hvernig sumir fréttamenn hafa nánast farið á taugum og nær eingöngu verið að leita að sökudólgum.

Útifundir og annað í þeim dúr er gott tæki til að koma skoðunum sínum á framfæri en ég hef ekki heyrt einn einasta ræðumann á þeim fundum hafa boðið upp á lausnir enda er það ekki á færi einstaklinga að ná að greina þann gríðarlega vanda sem við okkur blasir. Ákall á kosningar er óðs manns æði og upplausn og lausung sem því myndi fylgja væri til mikils skaða því hvergi má slaka á vinnunni sem verið er að vinna alla daga, allar nætur.... hverja einustu klukkustund sólarhringsins.

Stöndum saman og leysum mál með samstöðu og baráttu og leitum að sökudólgum síðar...


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hann segir einnig " Møller og tekur fram að raunar sé forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti"  thad er thad sem er vandamálid med núverandi ríkisstjórn...

JOHANNES H (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 07:50

2 identicon

Án fyrstu lækningarinnar fer þetta aldrei lengra, þessi mæti maður þurfi ekki að glíma við það að sitja uppi með alla þá sem sigldu þessu í strand við stjórnvölinn áfram, það að láta taka ábyrgð er fyrsta skrefið sem taka verður áður en lengra er farið, það verður það fyrsta sem hann fer fram á. 

Horfði á áhugaverða mynd um helgina.  SS sveitirnar og starfsemi þeirra í seinni heimstyrjöldinni, þar sem venjulegir menn urðu að skrímslum og unnu óhæfuverk, ég er ekki að tala um sadistana þeirra á meðal, og ég er ekki að bera íslenska ráðamenn á nokkurn hátt saman við þá nema að þessu leiti.  Í réttarhöldunum að stríðinu loknu gekkst engin þeirra við því að hafa gert neitt rangt,  enginn, þó svo að það væri hróplega augljóst.  Í dag eru á annan tug þúsunda landsmanna atvinnulausir eða að vinna uppsagnarfrestinn sinn.  Ekki einn pólitíkus eða embættismaður hefur misst vinnuna eða viðurkennt að bera ábyrgð á þessu, ekki einn, hljómar kunnuglega. 

Fyrr en Ingibjörg þín og Geir fara að taka til og byrja á sjálfum sér er ekki nokkur séns að hér verði nokkuð lagað, bara plástrað eins og venjulega.  Þau ætla að treysta á pólitískt gullfiskaminni Íslendinga, það sama og valdi Ólaf til forseta skömmu eftir að hann hafði verið kosinn óvinsælasti stjórnmálamaðurinn. 

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 07:53

3 identicon

Sammála þessu - samstaða felst ekki í pólitísku skítkasti né heldur grjót eða eggjakasti - samstaða felst í því að styðja við ríkisstjórnina sem er búin að róa lífróður til þess að lágmarka skaðann af bankahruninu sem átti upptök sín í USA en varð illyrmislega stórt hér vegna græðgi nokkurra einstaklinga. 

Sýnum ríkisstjórninni samstöðu og bíðum með sakbendingar þar til búið er að fara í gegnum málin. Ef lög hafa verið brotin er sjálfgert að sækja viðkomandi aðila til ábyrgðar.

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 08:17

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Þetta er bara rétt, held ég. Umræðan er föst í reiðinni og því að tala um hvað allt er ómögulegt.  Lítið er um að bent sé á lausnir.

Jón Halldór Guðmundsson, 1.12.2008 kl. 08:22

5 Smámynd: nicejerk

Hann klykkir út í andann lykilorðunum:

"og tekur fram að raunar sé forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti".

Kosningar!

nicejerk, 1.12.2008 kl. 08:22

6 identicon

"forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti "

Hér er kjarni málsins, nú er enginn leiðtogi við stjórnvölinn sem þjóðin treystir, sé þessu breytt er hægt að feta veginn fram á við.

Steinar Immanuel Sörensson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 08:30

7 Smámynd: Pax pacis

Það er spurning hvort Geir og Ingibjörg séu þeir leiðtogar séu þeir leiðtogar sem Claus talar um. Mér finnst þau persónulega vanta þá auðmýkt sem þau þurfa að hafa til að njóta trausts. Ég get alveg verið sammála mörgum sem gagnrýnt hafa ákall um kosningar að því leyti að betra væri að hér væri við völd stjórn sem þjóðin treysti. Það er hins vegar ekki sú sem nú situr og hræðist breytingar, hvort sem það er í Seðlabanka eða eigin röðum, nú eða í bönkunum. Geir tjáði sig um þau mál um daginn og sagði að það hefði verið skipt um stjórn í bönkunum; jú, það er vissulega rétt að skipt hefur verið um bankastjórnina og framkvæmdastjóra, en að mínu mati hefði þurft að ganga lengra og skipta út fleiri yfirmönnum til að tryggja breytta starfshætti þar, svo ekki sé talað um að takmarka möguleika á spillingu rannsóknargagna í sakamálum. Ég er ekki í vafa um að hægt hefði verið að finna hæft fólk til þeirra starfa, innan bankanna sem utan.

Og af hverju er ríkisstjórnin í þessum feluleik? Af hverju er allt hulið einhverjum leyndardómshjúp? Er hann til þess fallinn að skapa traust? Nei, ég held að ef ríkisstjórnin sýnir ekki þann dug og þor að hætta þessum pólitísku leikjum við Davíð Oddson og setur hann af, ásamt öðrum bankastjórum Seðlabanka, Seðlabankaráði, Fjármálaeftirliti og öðrum sem ekki eru yfir allan vafa hafinn hjá þjóðinni, þá munu þau ekki ávinna sér það traust sem Claus segir að við þurfum að bera til leiðtoga okkar.

Ég var stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar en á meðan allt er óbreytt í stjórnsýslu landsins eftir slíkt áfall sem á okkur hefur dunið, þá læðist að manni sá grunur að þar sé eitthvað sem ekki þoli dagsins ljós. Vilji þau sýna að þau séu traustsins verð, þá þurfa þau að hleypa fleirum að til að votta að það sé ekki óhreint mjöl í pokahorninu. Þá getum við kannski farið að tala um traust.

Pax pacis, 1.12.2008 kl. 08:49

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vonandi verður honum boðið að koma og hjálpa til við að finna lausnir. Ég er viss um að þjóðin mun styðja ríkisstjórnina tímabundið ef hún viðurkennir að hafa sofið á verðinum og reyni að leysa vandann með hjálp erlendra sérfræðinga. Það er þögnin og "ekki ég" sem er að drepa mannorð Geirs og félaga.

Villi Asgeirsson, 1.12.2008 kl. 08:56

9 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ég ákvað að stinga þessu inn hér m.a. til að sjá viðbrögð.... og þau koma ekki á óvart.. sumir eru í sama gírnum og síðustu vikur og aðrir hvetja til rósemi og skynsemi.

Þetta með leiðtogann.... ætla menn að búa til "leiðtogann" í kosningum... kannast maður við þetta viðhorf ?

Sannir sterkir leiðtogar verða til þegar vandi steðjar að og lausna er þörf með hraði. Þannig leiðtogar verða ekki til eða eru búnir til í kosningum... þeir einfaldlega birtast í einstaklingum sem eru að vinna á vettvangi og rísa undir þeirri ábyrgð sem á þá er lögð. Mannkynssagan ætti að hafa kennt okkur að " leiðtoginn " sem fyrirbæri er ekki til.

Jón Ingi Cæsarsson, 1.12.2008 kl. 09:40

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

"forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti "

jamm, nýja forystu.. í sjálftekt og samfó. 

Óskar Þorkelsson, 1.12.2008 kl. 11:37

11 identicon

Fyrir mitt leiti er ég mjög sammála þessu og hef haldið þessu fram sjálf. Þjóðin virðist vera upp til hópa að drepast úr sjálfsvorkunn og reyna að finna blóraböggla hér og þar.
Þrátt fyrir að eitt og annað hafi kannski mátt betur fara þá finnst mér augljóst að ríkisstjórnin er að reyna að gera sitt besta, og miðað við allan þann mótbyr sem hún hefur mátt mæta og hefur þurft að díla við undanfarnar vikur þá finnst mér núverandi ríkisstjórn vera að vinna þrekvirki.
Hvernig heldur fólki að því myndi ganga að vinna vinnuna sína ef það væri sífelt verið að reyna að eyðileggja og setja út á vinnuna þeirra á meðan að þau væru að reyna að halda öllu uppi, ég held það væru ekki margir sem myndu endast lengi.

Ég tel að núna sé einmitt tíminn til að vera jákvæður og standa við bakið á hvort öðru þar á meðal ríkisstjórninni.

Tjásan (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband