8.3.2012 | 21:54
Hin síbreytilega Akureyri 4. hluti.
Í þremur síðustu pistlum hef ég fjallað um breytingar á bænum okkar vegna þeirra miklu uppfyllinga sem gerðar voru á árunum frá því um 1900 og allt fram til 1987. Landþrengslin höfðu í sjálfu sér neytt bæjaryfirvöld til að leita eftir viðbótarlandi með því að fylla út í Pollinn eins og tækni og sjávardýpi leyfðu. Á þessum uppfyllingum standa sennilega hátt i 100 hús. Nú ætla ég aðeins að beina sjónum að Oddeyrinni þar sem landrými var nóg og meira að segja áttu menn sér þann draum að þar gæti risið 30.000 manna byggð. Árið 1890 bjuggu 209 manns á Eyrinni þarf af voru 87 börn 16 ára og yngri.
Gleráin myndaði Oddeyri.
Þegar skip sigldu inn Eyjafjörðinn og inn á Pollinn um miðja 19. öld var engin byggð á Oddeyri. Eyrin var marflöt og lág og sást varla fyrr en að henni var komið. Fyrstu húsin sem risu á Eyrinni voru hús á vegum Gránufélagins og það var við neðanverða Strandgötu sem nú er og standa sum þessara húsa enn. Annað einkenni Oddeyrar á þeim árum voru mikil lón á neðanverðri Eyrinni. Það sem eftir var af þeim í æsku minni voru gjarnan kölluð Ósinn enda átti vatnið í þeim upptök í lænum og álum sem kvísluðust suður Eyrina frá Gleránni. Sagt er að fimm brýr hafi verið á Strandgötunni fyrstu áratugina og má sjá tvær þeirra á myndum frá þessum tíma, önnur alveg upp við þann stað sem nú stendur Strandgata 3 og hin öllu stærri og veigameiri neðan við gömlu Gránufélagshúsin neðst á Eyrinni. Strönd Oddeyrar var öll sand eða malarfjara frá Miðbænum og alveg að ósum Glerár. Hér og þar runnu lækjarsprænur til sjávar. Þannig var það þangað til Gleráin var beisluð í einum ós og farvegi.
Byggðin þéttist.
Fljótlega upp úr 1870 fóru hús að rísa við Strandgötu og syðst í hliðargötunum Grundargötu, Lundargötu og Norðurgötu. Strandgatan lá eftir fjörukambinum og sjór féll alveg upp að henni á stórstraumsflóði. Upp úr aldamótunum 1900 var farið að fylla í næst miðbænum eins og ég sagði frá í fyrri pislum. Lengi náði þessi uppfylling að Strandgötu 7 en þar austan við var smábátalægi bæjarbúa, grjótgarður og legufæri fyrir trillur og árabáta. Þessi dokk var fyllt upp nokkuð snemma og þá fluttist smábátaútgerð Oddeyringa í dokk sem gerð var þar sem nú er fiskihöfnin norðan ÚA. Þannig var suðurströnd Oddeyrar í áratugi þar til byrjað var að keyra hlöss í fjöruna við neðanverða Strandgötu, bæjaryfirvöld höfðu ákveðið að á sunnanverðri Oddeyri skyldu rísa risahafnarmannvirki. Hugmyndir voru um viðlegukanta langleiðina upp í núverandi Miðbæ en af því varð þó ekki og hafnarmannvirki á sunnanverðri Oddeyri urðu aldrei meiri en ein bryggja austast enda gekk það ekki átakalaust að koma því mannvirki í nothæft horf, og við það festist nafnið Sigalda vegna mikils sigs sem var fyrstu árin. Um 1930 hafði annað mannvirki risið framan við Strandgötu 35, Havsteenshús. Þar var steypt upp aðstaða fyrir sjóflug til bæjarins og þar voru mikil umsvif í 20 ár, fyrst aðstaða fyrir fyrstu sjóflugvélar í áætlunarflugi og síldarleit. Þarna voru Súlan og Veiðibjallan, Junkerflugvélar þjónustaðar og teknar á land. Í stríðinu notuðu hernámsliðin þetta svæði fyrir sjóflugvélar og þar hafði Norsk flugsveit með Northrop sjóvélar aðstöðu. Eftir stríðið bröltu Catalína og Gruman vélar íslensku flugfélaganna á land á þessum stað. Þegar ég var barn og unglingur var þetta mannvirki farið að láta nokkuð á sjá en var vinsælt leiksvæði barnanna ár Eyrinni og jafnvel mátti krækja í silungstitti af plönunum sem náðu fram á nokkuð dýpi.
Austurströndin og lónin.
Þegar ég var að alast upp ár Eyrinni var öll austurströndin horfin undir bryggjur. Syðst var Sverrisbryggja, þá Íshússbryggjan, Niðursuðubryggjan, og loks Togarabryggjan eins og hún var kölluð. Ég man ekki sandfjörur þarna nema alveg nyrst milli Slippsins og togarabryggjunnar og svo norðan Slippsins, þar var fjaran sem börnin af Eyrinni gátu leikið sér í um og eftir miðja síðustu öld. Hún er nú horfin undir stóra skipasmiðarhús Slippsins, flotkví og uppfyllingar hafnaryfirvalda. Fjaran þar vestan við er horfin undir Sandgerðisbótina, hina nýju smábátahöfn bæjarbúa. Dokkinni sem gerð var við Slippinn um 1950 var mokað upp, verbúðirnar rifnar og þar gerðir viðlegukantar Fiskihafnarinnar. Eins og sést á þessum lýsingum þá er ekki eftir einn einasti meter af náttúrulegum fjörum Oddeyrar, sumt var horfið fljótlega upp úr aldamótunum 1900 þegar bryggjur og plön tóku að spretta þar upp þegar Akureyringar í slagtogi við Norðmenn fóru að veiða síld í stórum stíl í Pollinum. Lónin miklu sem settu svip á Eyrina hurfu eitt af öðru. Sum voru fyllt af úrgangi bæjarbúa, sorphaugar þess tíma. Önnur voru fyllt upp og gjarnan risu hús á þessum uppfyllingum. Það voru eftir lítilsháttar leyfar af þessum lónum þegar ég var barn og þar lékum við okkur á prömmum og dunkum við siglingar. Hætt við að slíkt væri ekki vinsælt í dag. Síðasti pollurinn var þar sem nú er húsið Skáli við Laufásgötu og það var fyllt upp um 1970.
Síðustu framkvæmdir.
Fjaran á sunnanverðri Oddeyri frá olíutönkum BP sem voru í nokkur ár neðst ár Eyrinni, þar sem nú er Sigalda og Eimskipafélagskemmurnar, var ósnert hvað lengst. Eins og ég nefndi áður stóð til að þar risu hafnarmannvirki en þegar ekki varð af þeim áformum gerðist lítið þar í nokkur ár. Sandfjaran var þarna og var leikvöllur barnanna enn um sinn. En um 1990 var tekin sú ákvörðun að fylla 50-100 metra út í Pollinn á þessu svæði, gera gömlu Strandgötuna að húsagötu en leggja nýja tvöfalda götu á uppfyllingunni. Þar fyrir framan var síðan hlaðinn mikill grjótgarður til varnar sjávarágangi. Þar með hurfu síðustu metrar af náttúrulegri strönd á Oddeyri. Sem betur fer hefur nokkuð vel tekist til með þetta svæði. Það er smekklega frágengið og snyrtilegt. Lítið lón var gert austast og lítil brú setur svip á svæðið. Þó skortir nokkuð á að sinnt sé viðhaldi og það má glögglega sjá á stétt og hleðslum við minnisnerkið Flug sem reist var þar sem sjóflugvélaplanið var áður. Svona til gamans má nefna að þegar lágsjávað er má sjá glögg merki um mannvirki framan við Flugið, flugplanið sem nú er horfið og setti svip á bæjarmyndina í áratugi.
Ef framhald verður á þessum pistlum mínum væri fróðlegt og gaman að skoða gömlu húsin, sögu þeirra og núverandi ástand og stöðu en það er æði misjafnt og mörg þeirra horfin fyrir fullt og allt. En hér læt ég staðar numið um strandlengju og uppfyllingar.
Birtist áður á Akureyri.net.
Um bloggið
Jón Ingi Cæsarsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
- agny
- malacai
- megadora
- gumson
- skagstrendingur
- agustolafur
- bjarnimax
- bleikaeldingin
- bookiceland
- gattin
- bibb
- dofri
- ragnagrondal
- fsfi
- saltogpipar
- gisliivars
- gretar-petur
- lucas
- mosi
- gudrunkatrin
- nelson
- coke
- hehau
- hemba
- helgivilberg
- hildajana
- hildurhelgas
- himmalingur
- hlynurh
- slubbert
- minos
- hordurj
- ingolfurasgeirjohannesson
- jakobk
- leicester
- rabelai
- jonhalldor
- joninaros
- jonerr
- jonsnae
- thjodarskutan
- kafteinninn
- ktomm
- kjarri
- kjarrip
- ksk
- kristjanmoller
- larahanna
- lara
- lillagud
- magnusmar
- olafurjonsson
- skari60
- pallijoh
- ljosmyndarinn
- fjardarheidi
- safi
- siggisig
- stebbifr
- svavaralfred
- svenni
- saemi7
- saevarh
- sollikalli
- valdisa
- vestfirdir
- tbs
- thorhildurhelga
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 19
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.