Krossanesborgir í dag.

Krossanesborgir 19 júní 2011-0719  Nú eru orðin 7 ár síðan sá merki áfangi náðist að friðslýsa Krossanesborgir. Um þennan stað segir á heimasíðu Akureyrar.

Allstórt svæði (um 1 km2) í landi Ytra-Krossaness, austan við læk þann sem kallast Lón (Lónið), og nær frá þjóðveginum norður að bænum Brávöllum, og austur að svonefndum Krossaneshaga, sem er mýra- og móaslétta meðfram sjónum.  Þetta svæði er alsett klettaborgum eða stuttum klappaásum, er snúa norður suður, og eru vanalega hvalbakslaga, þ.e. aflíðandi að sunnanverðu en með klettabelti að norðan og austan.  Liggja þær í reglulegum röðum og þyrpingum, en á milli þeirra eru oftast mýrasund, og tjarnir í sumum þeirra. 

 

Helztu tjarnirnar eru Djáknatjörn, skammt fyrir innan Brávelli, og Hundatjörn upp af Ytra-Krossanesi.  Er mikill gróður í þessum tjörnum, sérstaklega Djáknatjörn, en þar vaxa margar nykrutegundir, m.a. hin sjaldgæfa langnykra.  (Hundatjörn hefur verið spillt nokkuð með framræslu.)  Á klettunum eru ýmis merki um jökulskriðið, fyrir utan lögunina, sem þegar var getið.  Þar eru víða greinilegar jökulrákir (jökulrispur) og dýpri grópir, mánabrot, grettistök o.fl.  Gróðurfar í borgunum er nokkuð fjölbreytt og hafa þar fundist um 170 plöntutegundir, þar af 16 starategundir.  Meginhluti mýranna í borgunum hefur sloppið við framræslu, og er mýragróðurinn því sérstaklega fjölbreyttur.  Annars er lyng- eða grasgróður ríkjandi á þurrlendinu, og nokkuð er af víðirunnum.  Fuglalíf er all-fjölskrúðugt, einkum við tjarnirnar, og verpa þar máfar og endur, en ýmsir mófuglar og vaðfuglar í borgunum.  Landið hefur verið töluvert beitt, einkum af hestum síðustu árin.

 

Gamli reiðvegurinn útí Hlíðina lá um neðanverðar Borgirnar og nálægt miðjum Borgunum eru rústir af kotinu Óskaragerði (Lónsgerði), skammt frá Lóninu.  Lónið fellur í þröngu klettagili fyrir vestan borgirnar, neðantil, og eru þar smáfossar og flúðir.  Vestan við gilið eru tvær áberandi klettaborgir, sem Hrafnabjörg nefnast, og eru þær í landi Dvergasteins.  Eins eru yztu eða nyrztu borgirnar í landi Brávalla, sem tilheyrir Glæsibæjarhreppi.

 

(Túnið í Ytra-Krossanesi er á melasléttu, sem líklega er gömul óseyri Glerár, sem hefur runnið þar út í sjó eða jökullón.  Nokkrar kvosir eru í túninu, sú stærsta rétt utan við bæinn, og safnast stundum vatn í hana.  Nokkur stutt gil skerast inn í melana frá sjónum.  Í Bæjarlækjargilinu, sunnan við bæinn er nú allmikið malarnám.) ( Heimasíða Akureyrarkaupstaðar - Staðardagskrá 21)

Hægt og bítandi eru Krossanesborgir að ná stöðu sem útivistarsvæði og það má sjá á þeim stígum sem liggja um borgirnar að notkun þeirra hefur vaxið og sérstaklega er áberandi að fólk sækir það að koma við í fuglaskoðunarhúsinu við Djáknatjörn nyrst í borgunum. Í dag var sérlega bjart og fallegt veður þó lofthitinn væri ekki mikill frekar en verið hefur.

Það má orðið sjá gríðarlegan mun á gróðurfarinu og um allar borgir er birkið að ná sér á strik og maður verður stundum hissa að sjá hvar þetta harðgera tré stingur upp kollinum. Nú þegar er trjágróður farinn að setja mikinn svip á umhverfið. Það er eiginlega með ólíkindum þær breytingar sem sjá má þarna síðustu 10 árin. Auðvitað kom þetta allt með algjörri friðun fyrir beit og svo hefur hlýnandi veðurfar sitt að segja eins og annarstaðar á Íslandi, þar sem birkið sækir hratt fram og hækkar sig til fjalla. Það verður orðið gróður og skjólsælt víða í Krossanesborgum á næstu áratugum.

Krossanesborgir 19 júní 2011-0727Krossanesborgir 19 júní 2011-0730

 

Krossanesborgir 19 júní 2011-0731Krossanesborgir 19 júní 2011-0739

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Jón Ingi Cæsarsson

Höfundur

Jón Ingi Cæsarsson
Jón Ingi Cæsarsson

Akureyringur.  Oddeyringur.  Jafnaðarmaður.

Formaður Póstmannafélags Íslands.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 000 2021 5.10. haustsol-0158
  • 2022 týndur
  • 20211224-IMG 0196
  • 2022 bb kj si
  • 20220407-IMG 0288

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband